Handbolti

Erlingur: Væri hér í hálftíma ef ég ætti að telja það upp sem við gerðum vel

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Erlingur er kominn með ÍBV í undanúrslit.
Erlingur er kominn með ÍBV í undanúrslit. vísir/vilhelm
Erlingur Richardsson, þjálfari ÍBV, lofaði sína menn eftir sigurinn á FH, 36-28, í kvöld. Eyjamenn unnu einvígi liðanna, 2-0, og eru komnir áfram í undanúrslit.

„Það vilja ekki margir sem vilja koma til Eyja. Þetta er góður heimavöllur. Ég verð að hrósa strákunum. Þeir spiluðu frábæran handbolta,“ sagði Erlingur eftir leik.

„Róbert [Sigurðarson] var eins og klettur í vörninni og hefur staðið sig mjög vel að undanförnu. Ég er ánægður að við höfum haldið haus. Það er oft erfitt þegar forystan er mikil. Ég er mjög ánægður með hvernig menn komu inn í seinni hálfleikinn og við stjórnuðum leiknum. Ef ég ætti að telja það upp sem við gerðum vel væri ég hér í hálftíma.“

Eyjaliðið lítur afar vel út þessa stundina og stemmningin í liðinu virðist vera mjög góð.

„Við höfum æft gríðarlega vel. Við slógum ekkert af í þessum hléum. Það hefur skilað sér. Svo skiptir liðsandinn miklu máli,“ sagði Erlingur.

Hann er ánægður með hversu margir leikmenn ÍBV voru með framlag í sókninni.

„Tíu leikmenn skoruðu í leiknum. Við áttum engan leikmenn á meðal tíu markahæstu leikmanna deildarinnar en skoruðum samt mest allra liða. Liðsheildin hefur verið sterk,“ sagði Erlingur.

Í undanúrslitunum mætir ÍBV annað hvort Haukum eða Stjörnunni. Þau mætast í oddaleik á miðvikudaginn.

„Mér líst mjög vel á þetta. Í dag sáum við að Stjarnan ætlar sér að komast áfram. Núna getum við fylgst með oddaleiknum. Hefðin er Haukamegin og þeir eru deildarmeistarar. En við ætlum að njóta og gefa allt í þetta,“ sagði Erlingur.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×