Erlent

Kastaði nýfæddum hvolpum í poka í ruslið í Kaliforníu

Samúel Karl Ólason skrifar
Myndband sýnir að konan virtist fyrst ætla að setja hvolpana í endurvinnslugám en hætti við þegar hún leit ofan í hann.
Myndband sýnir að konan virtist fyrst ætla að setja hvolpana í endurvinnslugám en hætti við þegar hún leit ofan í hann. Skjáskot
Lögreglan í Coachella í Kaliforníu leitar nú konu sem náðist á myndband við það að kasta sjö nýfæddum hvolpum í ruslið. Nánar tiltekið setti hún pokana í plastpoka og kastaði þeim nærri ruslagámum við bílaverkstæði nú á fimmtudaginn. Starfsmenn dýraeftirlits Riverside sýslu, í samstarfi með lögreglunni og saksóknurum, undirbúa nú mál gegn konunni fyrir dýraníð.

Vegfarandi rambaði á hvolpana við gáminn en talið er að þeir séu um þriggja daga gamlir. Ólíklegt þykir að þeir hefðu lifað af ef þeir hefðu ekki fundist svo fljótt vegna þess hve heitt er í Kaliforníu um þessar mundir.

Dýraeftirlit Riverside sýslu hefur birt myndband úr öryggisvélum verkstæðisins með því markmiði að einhver geti borið kennsl á konuna. Myndbandið sýnir að konan virtist fyrst ætla að setja hvolpana í endurvinnslugám en hætti við þegar hún leit ofan í hann.

Chris Meyer, frá dýraeftirlitinu, segir í tilkynningu að það sé óafsakanlegt að koma fram við dýr með þessum hætti. Sérstaklega með tilliti til þess að dýraeftirlitið og önnur skýli taka reglulega við hvolpum sem þessum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×