Erlent

Fjórðungur dýra- og plöntutegunda í hættu vegna manna

Kjartan Kjartansson skrifar
Borgarland hefur tvöfaldast að flatarmáli frá 1992. Frá Jakarta á Indónesíu þar sem einnig hefur verið gengið hratt á skóga til að rýma til fyrir pálmaolíuframleiðslu.
Borgarland hefur tvöfaldast að flatarmáli frá 1992. Frá Jakarta á Indónesíu þar sem einnig hefur verið gengið hratt á skóga til að rýma til fyrir pálmaolíuframleiðslu. Vísir/EPA
Allt að milljón tegundir lífvera eru í útrýmingarhættu á næstu áratugum vegna ágangs manna á náttúruna. Í nýrri skýrslu á vegum Sameinuðu þjóðanna kemur fram að aldauði lífvera sé margafalt meiri nú en meðaltal síðustu tíu milljón ára og að ein af hverjum fjórum tegundum séu í hættu.

Álagið á náttúruna er rakið til eftirspurnar mannkynsins eftir sífellt meiri matvælum og orku í skýrslu milliríkjanefndar um líffræðilegan fjölbreytileika og þjónustu vistkerfa (IPBES). Þó að menn hafi alltaf verið frekir til fjörsins hafi áhrif þeirra á jörðina orðið djúpstæðari undanfarin fimmtíu ár.

Skýrslan er um 1.800 blaðsíður að lengd og byggir á um 15.000 heimildum, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Í henni er rakið hvernig mannkynið hefur tvöfaldast að fjölda frá 1970. Á sama tíma hefur hagkerfi heimsins fjórfaldast og alþjóðleg viðskipti tífaldast.

Verði ekkert að gert muni afleiðingarnar koma niður á mönnum. Hnignun náttúrunnar eigi eftir að hafa djúpstæð áhrif á matvælaframleiðslu, aðgang að vatni og orku með tilheyrandi hættu fyrir heilsu manna.

Fordæmalaus hnignun

Loftslagsbreytingar af völdum manna eru sagðar ágera áhrif ofveiði, eiturefnanotkunar og útþenslu mannabyggða. Um þriðjungur landsvæðis á jörðinni og um 75% af ferskvatni er nú notað undir ræktun á plöntum eða dýrum, að sögn Washington Post.

Um hundrað milljón hektarar frumskógar í hitabeltisskógum hafa verið ruddir, fyrst og fremst til að rýma til fyrir nautgriparæktun í Suður-Ameríku og pálmaolíuframleiðslu í Suðaustur-Asíu. Aðeins um 13% af votlendi sem var til á jörðinni árið 1700 var enn til staðar árið 2000. Borgir hafa tvöfaldast að flatarmáli frá 1992.

„Við höfum sýnt fram á virkilega fordæmalausa hnignun líffræðilegs fjölbreytileika og náttúru sem er algerlega ólík nokkru sem við höfum séð í sögu mannkynsins hvað varðar hraða hnignunarinnar og umfang ógnarinnar,“ segir Kate Brauman frá Minnesota-háskóla sem er einn höfunda skýrslunnar.

Skógareyðing í Amasónfrumskóginum í Perú af völdum ólöglegrar námuvinnslu.Vísir/EPA

Plastmengun tífaldast á fjórum áratugum

Auk breyttrar landnýtingar sem gengur á búsvæði lífvera valda menn stórtækum spjöllum á náttúrunni. Í skýrslunni kemur fram að plastmengun hafi aukist tífalt frá 1980 og menn dæli 300-400 milljónum tonna af þungmálmum, leysiefnum, eitraðri eðju og öðru úrgangi út í vötn jarðar á ári hverju.

Veiðar á um þriðjungi fiskistofna jarðarinnar voru ósjálfbærar árið 2015, kóralrif hafa minnkað um nærri því helming á 150 árum og jarðvegur stendur nú undir tæplega fjórðungi minni landbúnaðarframleiðslu en áður vegna eyðingar hans.

Kóralrif jarðar eru í bráðri hættu, bæði vegna loftslagsbreytinga af völdum manna og mengunar.Vísir/EPA

Hverfi frá hagvexti og landsframleiðslu sem viðmiðum

Til þess að stöðva hnignunina leggja skýrsluhöfundar til að jarðarbúar verði að hverfa af braut „þröngum viðmiðum efnahagslegs hagvaxtar“. Þannig ætti að hætta að meta auð ríkja út frá landsframleiðslu og horfa frekar til lífsgæða og langtímaáhrifa. Bætt lífsgæði hafi fram að þessu nær eingöngu byggst á aukinn neyslu og við það verði ekki búið áfram.

Lagt er til að ríkisstjórnir heims hætti að niðurgreiða iðnað sem skaðar náttúruna eins og jarðefnaeldsneyti, fiskveiðar og landbúnað og að land- og hafsvæði verði vernduð í auknum mæli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×