Eldur kom upp í Valsárskóla á Svalbarðseyri á sjöunda tímanum í kvöld. Í samtali við fréttastofu staðfesti varðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra að nokkrir ungir strákar úr hverfinu hafi kveikt í rusli inni í geymslu sem olli eldinum.
Brunavarnarkerfi skólans fór af stað og sá húsvörður skólans eld leggja frá geymslunni sem staðsett var í kennsluálmu skólans. Honum tókst að slökkva eldinn að mestu og bar tæki, meðal annars ryksugu, út á skólalóðina sem kviknað hafði í.
Slökkviliði barst tilkynning um eldinn kl. 18:24 en búið var að slökkva allan eld þegar viðbragðsaðilar mættu á staðinn og byrjað var að reykræsa skólann kl. 18:45.
Tjón sökum eldsins er ekki talið mikið en einhverjar reykskemmdir kunna að hafa orðið.

