Innlent

Skólastarfi í Seljaskóla aflýst vegna brunans

Birgir Olgeirsson skrifar
Eins og sjá má er tjónið mikið.
Eins og sjá má er tjónið mikið. Vísir/Jóhann K.
Skólastarfi í Seljaskóla hefur verið aflýst á morgun eftir að mikill eldur kom upp í þaki skólans í nótt. Þá þurfa hátt í þrjú hundruð nemendur að mæta annað en í sína bekkjarstofu það sem eftir er skólaársins. 

Níu kennslustofur og þrjú fundarherbergi eru í rúst að sögn Magnúsar Þórs Jónssonar skólastjóra Seljaskóla. Eldurinn kom upp á miðnætti í gær og var allt tiltækt slökkvilið kallað til en slökkvistörf stóðu yfir fram eftir morgni. 

Ljóst er að tjónið er gríðarlegt en verið er að leita lausna til þess að unnt verði að halda skólastarfi áfram í vikunni. Alls eru 660 nemendur í skólanum. Rætt verður nánar við skólastjóra Seljaskóla í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.

Allt tiltækt slökkvilið var kallað út á fimmta tímanum í nótt vegna brunans. Mikið tjón er á einni álmu skólans en þak byggingarinnar féll í brunanum. Tilkynning um eldinn barst slökkviliði um miðnætti og þegar fyrstu menn komu á vettvang var strax ljóst að ráðast þyrfti í umfangsmikið slökkvistarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×