Öflugur jarðskjálfti að öllum líkindum allt að átta að stærð reið yfir norðanverðan miðhluta Perú í morgun. Bandaríska jarðvísindastofnunin segir skjálftann hafa átt upptök sín á um 114 kílómetra dýpi, um 80 kílómetra suðaustur af þorpinu Lagunas og um 98 kílómetra frá borginni Yurimaguas klukkan 2:42 að staðartíma í nótt.
Ekki hafa borist fréttir af manntjóni en eftir því sem upptök skjálfta eru nær yfirborði valda þeir meira tjóni. AP-fréttastofan segir að í höfuðborginni Lima hafi fólk hlaupið út úr húsum sínum af ótta við skjálftann. Rafmagni hefur slegið út í fjölda borga og þá hefur heyrst af því að gamlar byggingar hafi hrunið í Yurimanguas.
Að sögn Veðurstofu Íslands rugluðu bylgjur jarðskjálftans mæla hér á landi. Þeir sýndu af þessum sökum skjálfta upp á 3,6 utan við Akureyri.
Matrín Vizcarra, forseti Perú, biðlaði til landsmanna um að sýna stillingu. Yfirvöld væru að kanna ástandið á þeim svæðum þar sem áhrif skjálftans voru mest. Almannavarnir Perú áætla að skjálftinn hafi verið 7,2 að stærð.
