Þá er vitað um sex þrista sem stefna til Íslands í dag, ýmist frá Grænlandi eða Kanada. Tveir þeirra koma frá Narsarsuaq og áætlar annar þeirra lendingu í Reykjavík klukkan 20.30 en hinn klukkan 21.50 í kvöld.
Meiri óvissa ríkir um fjóra þrista sem staddir voru í Goose Bay í morgun og áætluðu að komast yfir til Grænlands í dag og svo áfram til Íslands í kvöld. Það skýrist væntanlega síðdegis hvort þeir muni ná til Reykjavíkur fyrir næturlokun vallarins klukkan 23 í kvöld, eða hvort þeim verði beint til Keflavíkur.
Meðal þristanna sem héldu af landi brott í morgun var hinn sögufrægi „That's All, Brother", sem var forystuvél í innrásinni miklu í Normandí á D-deginum þann 6. júní 1944. Tilgangur þristaleiðangranna er einmitt að minnast þessa atburðar á 75 ára afmæli hans.