Handbolti

Segir að pressan sé á Selfyssingum: „Eiga að njóta þess að spila svona leik“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Það verður ekki létt verk fyrir Selfyssinga að landa Íslandsmeistaratitlinum í handbolta á heimavelli í kvöld segir Ásbjörn Friðriksson fyrirliði FH.

Pressan verður öll á Selfoss í kvöld þegar Haukar koma í heimsókn en Selfoss er 2-1 yfir í einvíginu eftir sigur í þriðja leik liðanna á Ásvöllum á sunnudaginn.

Ásbjörn ræddi um leikinn við Guðjón Guðmundsson en Ásbjörn segir að nú sé pressan komin af Haukunum yfir á heimaliðið í kvöld, Selfoss.

„Þetta er í fyrsta skipti í seríunni sem pressan er komin yfir á þá. Þeir vilja klára þetta á sínum heimavelli fyrir framan sína stuðningsmenn en Haukarnir hafa áður farið í svona leik og náð sigri,“ sagði Ásbjörn.

„Þeir knýja þá fram oddaleik með sigri og þá þurfa þeir að ná þriðja sigrinum á Ásvöllum sem gæti orðið erfitt fyrir þá.“

Margir ungir og skemmtilegir leikmenn eru í herbúðum Selfyssinga en Ásbjörn segir að þeir eigi að njóta leiksins í kvöld.

„Þetta verður frábær reynsla og skemmtun fyrir þessa stráka. Þeir eiga að njóta þess að spila svona leik. Þú spilar ekki marga leiki á ferlinum með bikarinn í húsinu og með sigri geturu klárað titilinn fyrir framan þína stuðningsmenn.“

„Þeir eiga ekki eftir að spila marga svona leiki. Vonandi einhverja þeirra vegna en þeir þurfa að njóta þess á morgun og reyna að klára þennan titil,“ sagði Ásbjörn.

Viðtalið við Ásbjörn má sjá í spilaranum hér að ofan en flautað verður til leiks klukkan 19.30 í kvöld. Seinni bylgjan hefur upphitun sína 18.45 í beinni á Stöð 2 Sport HD.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×