Fjórar flugvélar, ýmist DC-3 eða C-47 frá Bandaríkjunum, allar smíðaðar á árunum 1943 til 1945, eru núna komnar á flugstæðið. Auk þess er von á fimmtu flugvélinni um klukkan 17 nú síðdegis en hún er nú á leið frá Grænlandi.
Sex þristar, sem lentu í Goose Bay í Kanada í gærkvöldi, áætluðu þá að koma til Reykjavíkur síðdegis eða í kvöld. Þeir hafa hins vegar tafist vegna ísingar á flugleiðinni milli Labrador og Grænlands. Hugsanlegt er að einhverjir þeirra nái til Reykjavíkur í kvöld en það er óvíst.

Leiðangur flugvélanna er í tilefni þess að í byrjun júní verða 75 ár liðin frá innrás Bandamanna í Normandi í síðari heimsstyrjöldinni. Þar verður efnt til athafnar og þessa atburðar minnst. DC-3 flugvélar fluttu þá fallhlífahermenn frá Bretlandi yfir Ermarsund sem stukku út yfir Normandí til að taka þátt í innrásinni. Flugvélar þessarar gerðar frá Bandaríkjunum og Evrópulöndum taka þátt í athöfninni.