Viðskipti erlent

Hunsuðu viðvaranir um grunsamlegar færslur tengdar Trump og Kushner

Kjartan Kjartansson skrifar
Þýski bankinn Deutsche Bank er stærsti skuldadrottinn Trump Bandaríkjaforseta.
Þýski bankinn Deutsche Bank er stærsti skuldadrottinn Trump Bandaríkjaforseta. Vísir/EPA
Stjórnendur Deutsche Bank höfnuðu tillögum sérfræðinga bankans í peningaþvætti um að þeir skyldu tilkynna grunsamlegar millifærslur sem tengdust Donald Trump Bandaríkjaforseta og Jared Kushner, tengdasyni hans, til eftirlitsstofnana. Bankinn hefur lánað Trump og Kushner milljarða dollara undanfarin ár.

New York Times hefur eftir fimm núverandi og fyrrverandi starfsmönnum Deutsche Bank að sérfræðingar bankans hafi komið auga á fjölda fjármálahreyfinga sem tengdust fyrirtækjum Trump og Kushner sem þeir töldu rétt að tilkynna til fjárglæpadeildar bandaríska dómsmálaráðuneytisins árin 2016 og 2017.

Tölvukerfi bankans sem á að greina ólöglegar færslur flaggaði viðskiptin og starfsmenn bankans undirbjuggu svonefndar skýrslur um grunsamlegt athæfi. Yfirboðarar þeirra hafi aftur á móti virt þær ráðleggingar að vettugi og færslurnar voru því aldrei tilkynntar til yfirvalda.

Sumar færslnanna tengdust góðgerðasjóði Trump sem síðan hefur verið leystur upp. Einhverjar þeirra eru sagðar hafa verið grunsamlegar millifærslur fram og til baka á milli fyrirtækja Trump og Kushner annars vegar og erlendra einstaklinga eða fyrirtækja hins vegar.

Bandaríska blaðið tekur fram að það eitt að bankastarfsmenn hafi flaggað færslurnar þýði ekki endilega að þær hafi verið ólöglegar og bankar ákveða stundum að tilkynna þær ekki telji þeir ekki tilefni til þess. Þá þekkist það að fasteignafyrirtæki eins og þau sem Trump og Kushner hafa rekið eigi í viðskiptum við erlenda aðila þar sem greitt sé með reiðufé.

Bankastarfsmennirnir sem New York Times ræddi við telja aftur á móti að ástæðan fyrir því að færslur Trump og Kushner hafi ekki við tilkynntar til yfirvalda hafi verið almennt værukær afstaða stjórnenda Deutsche Bank til peningaþvættis. Þeir hafi reglulega hunsað lögmætum ábendingum um grunsamlegar færslur til að vernda samband sitt við mikilvæga viðskiptavini.

„Þetta er Deutsche Bank-hátturinn. Þeir eru gjarnir á að afskrifa allt,“ segir Tammy McFadden, fyrrverandi sérfræðingur í peningaþvætti hjá Deutsche Bank. Hún fór sjálf yfir nokkrar færslnanna sem tengdust Trump og Kushner. Hún segist hafa verið rekin í fyrra eftir að hún lýsti áhyggjum af framferði bankans.

Trump og Kushner (t.h.) eru báðir í fasteignabransanum. Færslurnar sem voru taldar grunsamlegar voru á milli fyrirtækja þeirra og erlendra aðila, þar á meðal Rússa.Vísir/EPA

Óvanalegt að svo margar ábendingar séu hunsaðar

Á meðal færslnanna sem McFadden vildu tilkynna voru fjárhæðir sem fóru frá fyrirtæki Kushner til rússneskra einstaklinga. McFadden sá meðal annars ástæðu til að tilkynna yfirvöldum um þær í ljósi þess að bandarísk eftirlitsstofnun hafði skipað bankanum að fylgjast betur með grunsamlegum greiðslum eftir að hann var staðinn að því að þvætta milljarða dollara fyrir Rússa.

Færslur sem tengdust nokkrum lögaðilum í eigu Trump voru einnig taldar grunsamlegar eftir að hann tók við sem forseti. Tilkynningar um þær voru ekki sendar yfirvöldum. Starfsmenn Deutsche Bank sem New York Times ræddi við sögðu óvanalegt að stjórnendur hunsuðu fjölda ábendinga um sama viðskiptavininn.

Talsmaður Deutsche Bank segir að starfsmönnum bankans hafi aldrei verið meinað að fylgja eftir grunsemdum um færslur. Talsmaður Trump-fyrirtækisins segist ekki hafa vitneskju um neinar grunsamlegar færslur sem fóru í gegnum Deutsche Bank. Talsmaður fyrirtækja Kushner segir að ásakanir um mögulegt peningaþvætti í gengum Deutsche Bank séu uppspuni.

Deutsche Bank er ein fárra stórra fjármálastofnana sem hefur verið tilbúin að lána Trump stórar upphæðir þrátt fyrir röð gjaldþrota fyrirtækja hans undanfarna tvo áratugi. Þegar Trump varð forseti er hann sagður hafa skuldað þýska bankanum um 300 milljónir dollara, jafnvirði rúmra 37 milljarða íslenskra króna.

Nokkrar rannsóknir standa yfir á fjármálum Trump og hafa forsetinn og fjölskylda hans stefnt bankanum í tilraun til að koma í veg fyrir að hann afhendi rannsakendum gögn um fjármál þeirra.

Umfangsmikil peningaþvættismál hafa skekið stóra banka víða um heim undanfarin misseri. Breski bankinn HSBC greiddi 1,9 milljarða dollara í sekt til að komast hjá saksókn fyrir að hafa leyft mexíkóskum glæpagengjum að þvætta hundruð milljóna dollara í það minnsta í útibúum bankans þar árið 2012. Á Norðurlöndunum hafa bankar eins og Danske bank, Swedbank og Nordea verið sakaðir um stórfellt peningaþvætti.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×