Innlent

Borgin kaupir hús á Hringbraut fyrir fatlað fólk á 230 milljónir króna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Húsið stendur á horni Hringbrautar og Hofsvallagötu. Þar hefur verið mikil útleiga til ferðamanna undanfarin ár.
Húsið stendur á horni Hringbrautar og Hofsvallagötu. Þar hefur verið mikil útleiga til ferðamanna undanfarin ár. Já.is
Borgarráð hefur samþykkt kaup borgarinnar á Hringbraut 79 í Vesturbæ Reykjavíkur. Þar verður íbúðakjarni fyrir fatlað fólk. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Kaupverðið er 230 milljónir króna.

Hringbraut 79 samanstendur af tveimur íbúðum ásamt tvöföldum bílskúr. Íbúðirnar skiptast í 7 íbúðaeiningar, sem allar eru með sér eldhúsinnréttingu og baðherbergi. Með húsinu fylgir húsbúnaður. Húsið hefur verið tekið rækilega í gegn undanfarin ár og var garðurinn meðal annars grafinn niður við framkvæmdir á kjallaranum.

Kaupin eru liður í samþykki borgarráðs í janúar 2019 um forgangsröðun á uppbyggingu og eða kaupum á húsnæði fyrir íbúðakjarna fyrir konur með geðfötlun og fjölþættan vanda.

„Hlutverk kjarnans er að veita þeim aðstoð til að eiga sjálfstætt og innihaldsríkt líf innan og utan heimils með því að mæta þörfum þeirra á heildstæðan og einstaklingsmiðaðan hátt með áherslu á sjálfstætt líf og valdeflandi stuðning,“ segir í tilkynningunni.

Húsið er samtals 395,3 fermetrar að stærð og verður framleigt til velferðasviðs Reykjavíkurborgar.

Á næstu dögum verður auglýst eftir forstöðumanni og í kjölfar þess eftir öðru starfsfólki en í kjarnanum verður sólarhringsþjónustu. Áætlað er að starfsemi hefjist í húsinu síðla næsta haust.

Húsið var í eigu rekstarfélagsins Kjarna sem er í eigu hjónanna Elínar Árnadóttur og Magnúsar Arnar Friðjónssonar.

Nánar í fundargerð borgarráðs frá 20. júní.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×