Samkvæmt nýrri ofbeldisvarnaráætlun stjórnvalda verður myndaður starfshópur sem á að kortleggja þörfina fyrir úrræði á borð við kvennaathvarf á landsbyggðinni. Þetta á að gera með áherslu á aðgengi óháð búsetu. Hópurinn á að skila skýrslu um málið í júní á næsta ári.
Á síðasta ári komu 135 konur og sjötíu börn til dvalar í kvennaathvarfinu í Reykjavík; þangað sem fórnarlömb heimilisofbeldis og mansals geta leitað. Þar að auki komu 240 konur í samtals 500 viðtöl. Tæpur fimmtungur komu utan af landi. Ragna Björg Guðbrandsdóttir, verkefnastjóri hjá Bjarkarhlíð, miðstöðvar fyrir þolendur ofbeldis, telur brýnt að konur geti leitað í kvennaathvarf á landsbyggðinni.

Bjarmahlíð var opnuð á Akureyri í maí en þar er veitt sambærileg þjónusta og í Bjarkarhlíð. Boðið er upp á ráðgjöf og upplýsingar fyrir fólk sem hefur verið beitt ofbeldi. En þolendur geta þó ekki dvalið þar. Ragna segir ljóst að Bjarmahlíð hafi verið tímabært úrræði.
„Það hefur nú þegar sýnt sig að það er þörf á því eins og flestum úrærðum sem opna fyrir þolendur ofbeldis, því miður," segir hún.
Þrátt fyrir að enn eigi eftir að greina þörfina á landsvísu blasir hún þegar við á Norðurlandi og til skoðunar er að opna athvarf í tengslum við Bjarmahlíð.
„Ég veit að í undirbúningi þess og í samtalinu um það hefur komið til tals hvort það sé hægt að opna eða athvarf fyrir konur á Norðurlandi," segir Ragna.