Laust eftir klukkan 16 í gær var þyrlan kölluð til vegna aðstoðarbeiðni sem barst frá íslensku togskipi úr Barentshafi vegna manns sem hafði slasast á fæti. Þyrlan hélt af stað ásamt annarri þyrlu TF- EIR og flugvél gæslunnar TF-SIF sem voru TF-LIF innan handar. Öll tiltæk loftför Landhelgisgæslunnar tóku því þátt í útkallinu.
Eftir að hafa tekið eldsneyti á Þórshöfn var þyrlan komin að skipinu um klukkan 20 í gærkvöldi en skipið var þá statt um 118 sjómílur norðaustur af Langanesi. Skipverjinn var hífður upp í þyrluna og lenti hún á Reykjavíkurflugvelli skömmu eftir klukkan 23 og var skipverjinn keyrður á slysadeild með sjúkrabíl.
Áður hafði þyrlan verið kölluð til vegna umferðarslyss rútu og fólksbíls á Suðurlandi í hádeginu.
Því var um að ræða þrjú útköll á 14 klukkutíma kafla.