Tindastóll gefur ekkert eftir í toppbaráttu Inkasso-deildar kvenna en í kvöld vann liðið 1-2 sigur á ÍA á Akranesi. Þetta var fyrsti leikur ÍA eftir að Helena Ólafsdóttir hætti sem þjálfari liðsins.
María Dögg Jóhannesdóttir, leikmaður Tindastóls, fékk rautt spjald á 57. mínútu fyrir að sparka í Skagakonuna Erlu Karítas Jóhannesdóttur.
Einni fleiri juku heimakonur pressuna og komust yfir á 81. mínútu með marki Erlu Karítasar.
Á 87. mínútu jafnaði Murielle Tiernan metin fyrir gestina frá Sauðárkróki með sínu ellefta marki í sumar. Stólarnir voru ekki hættir og þegar þrjár mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma skoraði Bryndís Rut Haraldsdóttir sigurmark Tindastóls með skalla eftir hornspyrnu Jacqueline Altschuld. Lokatölur 1-2, Tindastóli í vil.
Stólarnir eru í 3. sæti deildarinnar með 18 stig, þremur stigum frá Þrótturum sem eru í 2. sætinu.
Skagakonur, sem hafa tapað fjórum leikjum í röð, eru í 7. sæti deildarinnar með ellefu stig.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.
Dramatískur sigur Stólanna á Skaganum

Tengdar fréttir

Toppliðin unnu bæði
Fjórir leikir fóru fram í Inkasso-deild kvenna í kvöld.

Helena hætt með ÍA
ÍA, sem situr í 6. sæti Inkasso-deildar kvenna, þarf að finna sér nýjan þjálfara.