Frank er eini nýliðinn í íslenska landsliðshópnum sem Craig Pedersen valdi fyrir forkeppni undankeppni EM 2021.
„Þetta er ógeðslega spennandi. Ég er búinn að bíða eftir þessu í 5-6 ár að spila fyrir landið mitt,“ sagði Frank í samtali við Júlíönu Þóru Hálfdánardóttur í Sportpakkanum.
Móðir Franks er íslensk en faðir hans og nafni er Bandaríkjamaður sem lék körfubolta með ÍR, Val og Grindavík hér á landi á árunum 1991-95. Hann var þrisvar sinnum stigakóngur efstu deildar og bikarmeistari með Grindavík 1995.
Frank yngri, sem er 25 ára, bjó fyrstu ár ævinnar á Íslandi og talar málið enn. Hann lék í háskóla í Bandaríkjunum og síðasta vetur lék Frank með Évreux í frönsku B-deildinni.
„Ég er heppinn að spila með þessum gaurum og fyrir þjálfarann og ég er ógeðslega spenntur,“ sagði Frank um komandi verkefni með íslenska landsliðinu.
Fréttina í heild sinni má sjá hér fyrir neðan.