Körfubolti

„Þetta var sjokk fyrir hann“

Valur Páll Eiríksson skrifar
Craig Pedersen segir erfitt að mæta Ísraelum en menn reyni að einblína á leikinn sjálfan, fremur en annað.
Craig Pedersen segir erfitt að mæta Ísraelum en menn reyni að einblína á leikinn sjálfan, fremur en annað. Vísir/Hulda Margrét

Craig Pedersen, landsliðsþjálfari karla í körfubolta, segir leikmenn liðsins sjaldan, eða jafnvel aldrei, hafa verið eins vel undirbúna og þeir eru fyrir komandi Evrópumót sem hefst í dag. Ísland mætir Ísrael klukkan tólf.

„Mér líður vel. Mér finnst við vel undirbúnir og allt er til staðar. Á æfingu (gær)dagsins förum við bara í örfá smáatriði. En mér finnst við aldrei hafa verið eins vel undirbúnir. Hvað leikmennina varðar finnst mér við á betri stað taktíst en höfum nokkurn tíma verið. Við getum ekki beðið eftir að byrja,“ segir Pedersen í samtali við Vísi.

Klippa: Missir af langbesta varnarmanni liðsins

Undirbúningur liðsins hafi gengið.

„Við erum með plan beggja megin vallarins og erum vel undirbúnir. Við sjáum hvernig boltinn rúllar fyrir okkur á morgun. Undirbúningsleikirnir hafa gengið vel gegn sterkum og stórum liðum. Í töpuðu leikjunum spiluðum við mjög vel og fengum helling út úr þeim. Undirbúningurinn hefur verið mjög góður.“

Haukur Helgi Pálsson heltist úr lestinni skömmu fyrir mót vegna meiðsla á barka. Craig segir fjarveru hans áfall, í ljósi þess að hann sé besti varnarmaður liðsins.

„Hann hefur spilað frábærlega í sumar og hann er lang besti varnarmaðurinn okkar. Hann gefur okkur reynslu og veit alltaf hvað hann á að gera við boltann þegar hann fær hann. Það var mikið áfall fyrir liðið. Þetta var sjokk og mikil vonbrigði fyrir hann. En við erum spenntir að hann komi hingað á föstudaginn og verði með okkur,“ segir Craig.

Haukur Helgi fór í aðgerð í fyrradag og líkt og Craig nefnir væntanlegur til Póllands á föstudag þar sem hann mun vera með liðinu, þó það verði ekki innan vallar.

Ísrael er andstæðingur morgundagsins. Töluverð óánægja ríkir víða vegna þátttöku liðsins á mótinu í ljósi ítrekaðra árása Ísraels á Gasa.

Kallað hefur verið eftir sniðgöngu íslenska liðsins á leiknum sem KKÍ hefur ekki í hyggju. Þó hefur sambandið kallað eftir brottreksti Ísraela af mótinu, samkvæmt framkvæmdastjóra þess. Craig vandaði orðaval sitt vel er hann var spurður út í áhrif pressunar sem fylgir á leikmenn liðsins.

„Við höfum talað um það og það er erfitt að hugsa um það. Við erum að reyna að spila körfubolta, hvernig á maður að segja þetta? Við virðum erfiðleikana á svæðinu og það sem gengur á, en reynum að halda okkar einbeitingu við körfubolta,“ segir Craig.

Fleira kemur fram í viðtalinu sem má sjá í spilaranum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×