Enski boltinn

Lið Gylfa sagt vera að bjóða sextíu milljónir og leikmann að auki fyrir Zaha

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wilfried Zaha í leik á móti Everton í apríl síðastliðnum.
Wilfried Zaha í leik á móti Everton í apríl síðastliðnum. Getty/Warren Little
Everton hefur mikinn áhuga á að kaupa Wilfried Zaha frá Crystal Palace og „stela“ honum frá Arsenal sem hefur verið á eftir þessum öfluga leikmanni í allt sumar.

Blaðamaður Telegraph hefur heimildir fyrir því að Everton ætli að bjóða Crystal Palace 60 milljónir punda fyrir Wilfried Zaha og tyrkneska framherjann Cenk Tosun auki. Palace-menn hafa sýnt Tyrkjanum áhuga.

Verði þessi kaup að veruleika þá myndi Gylfi Þór Sigurðsson ekki vera lengur dýrasti leikmaður Everton á upphafi en þeim titli hefur íslenski landsliðsmaðurinn haldið síðan í september 2017.

Wilfried Zaha er 26 ára gamall og kom aftur til Crystal Palace frá Manchester United í ágúst 2014, fyrst á láni en Palace keypti hann síðan í byrjun febrúar 2015. United hafði keypt Zaha frá Palce sumarið 2013.

Zaha átti mjög gott tímabil með Crystal Palace síðasta vetur og var þá með 10 mörk og 10 stoðsendingar í 34 leikjum. Hann spilaði síðan með landsliði Fílabeinsstrandarinnar í Afríkukeppninni í sumar.





Í frétt Telegraph er einnig sagt frá plönum Chelsea um að kaupa Wilfried Zaha frá Crystal Palace um leið og félagið losnar úr félagsskiptabanninu sínu næsta sumar. Chelsea hefur áfrýjað til Alþjóða Íþróttadómstólsins en mestar líkur eru á því að félagið megi ekki kaupa leikmenn í janúarglugganum.

Það er líklegt að Crystal Palace sætti sig alveg við það að bíða í eitt ár með að selja stjörnuleikmann sinn og að Wilfired Zaha spili þá á Selhurst Park á komandi tímabili. Palace gæti einnig aukið líkur sínar á að fá Michy Batshuayi frá Chelsea sem var á láni hjá Palace á síðasta tímabili.

Það gæti líka ekki verið auðvelt að sannfæra Wilfried Zaha sjálfan um að Everton sé rétta félagið fyrir hann. Zaha hefur ekkert farið leynt með það að hann vill komast til félags sem hann trúir að muni keppa í Meistaradeildinni í framtíðinni. Chelsea og Arsenal standa þar framar en Everton.

Arsenal hefur ekki fundið peninga til að borga uppsett verð sem eru 80 milljónir punda en Chelsea ætti að fara „létt“ með það ef það losnar úr banninu. Hvort Everton takist að stela Wilfried Zaha á meðan verður að koma í ljós en Everton er tilbúið að gera Zaha að dýrasta leikmanninum í sögu félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×