Enski boltinn

Andy Carroll að snúa aftur til Newcastle?

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Andy Carroll var iðinn við kolann hjá Newcastle á sínum tíma
Andy Carroll var iðinn við kolann hjá Newcastle á sínum tíma vísir/getty
Englendingurinn stóri og stæðilegi, Andy Carroll, er nú í leit að nýju félagi eftir að hann fékk ekki endurnýjaðan samning hjá enska úrvalsdeildarliðinu West Ham United eftir síðustu leiktíð.

Carroll skoraði ekkert deildarmark á síðustu leiktíð en hann kom við sögu í 12 leikjum West Ham og var í meiðslavandræðum stærstan hluta tímabilsins.

Meiðsli hafa haft mikil áhrif á feril þessa 30 ára gamla sóknarmanns allt frá því hann gekk í raðir Liverpool frá Newcastle fyrir 35 milljónir punda á lokadegi félagaskiptagluggans í janúar 2011.

Enskir fjölmiðlar greina frá því í dag að Newcastle hafi áhuga á að endurnýja kynnin við Carroll en hann skoraði 11 mörk í 19 leikjum í ensku úrvalsdeildinni tímabilið sem hann var keyptur til Liverpool. Alls skoraði Carroll 33 mörk í 91 leik fyrir Newcastle á árunum 2006-2011.

Nokkuð ljóst er að Steve Bruce, nýráðinn stjóri Newcastle, þarf að gera eitthvað í framherjamálum því Salomon Rondon, Ayoze Perez og Joselu eru allir horfnir á braut frá síðustu leiktíð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×