Erlent

Áhrifavaldur á Instagram fannst látinn í ferðatösku á heimili sínu

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Auk þess að vera áhrifavaldur á Instagram og nýútskrifaður læknir hélt Karaglanova úti vinsælu ferðabloggi og með þúsundir áskrifenda.
Auk þess að vera áhrifavaldur á Instagram og nýútskrifaður læknir hélt Karaglanova úti vinsælu ferðabloggi og með þúsundir áskrifenda. Instagram
Ekaterina Karaglanova, 24 ára rússnesk kona, sem starfaði sem áhrifavaldur á Instagram, fannst látin á heimili sínu á föstudag. Lögregla fékk leyfi leigusala hinnar látnu til að brjótast inn í íbúð hennar eftir að fjölskylda hennar tilkynnti um hvarf hennar.

Breska ríkisútvarpið BBC greinir frá því að lögreglan hafi síðan fundið lík Karaglanovu í ferðatösku á ganginum. Konan reyndist vera með nokkur stungusár auk þess sem hún hafði verið skorin á háls. Faðir hennar vildi að hringt yrði á sjúkrabíl en lögreglan sagði að þess gerðist ekki þörf því dóttir hans væri því miður látin.

Karaglanova var með 85.000 fylgjendur á Instagram og hafði nýlega útskrifast sem læknir með sérhæfingu í húðlækningum. Hún hefur á undanförnum árum vakið mikla athygli í heimalandi sínu því hún þykir nauðalík bresku leikkonunni Audrey Hepburn en Karaglanova birti sjálf nokkrar myndir af Hepburn á Instagram-síðu sína.

Fjölskylda Karaglanovu ákvað að hafa samband við lögreglu þegar ekkert hafði spurst til hennar í nokkra daga.

Lögreglan telur mögulegt afbrýðisamur fyrrverandi kærasti sé ábyrgur fyrir morðinu á Karaglanovu því til hans sást á eftirlitsmyndavélum nokkrum dögum fyrir hvarfið.

Karaglanova hafði nýlega kynnst öðrum manni og þau tilkynnt um ástarsamband sitt. Karaglanova og nýi kærastinn voru búin að skipuleggja ferðalag til Hollands og ætluðu að halda upp á afmælisdaginn hennar sem reyndar er í dag.

Auk þess að vera áhrifavaldur á Instagram og nýútskrifaður læknir hélt Karaglanova úti vinsælu ferðabloggi og með þúsundir áskrifenda. Í síðustu Instagram-færslu sem hún skrifaði birti hún ljósmynd af grísku eyjunni Corfu. Undir ljósmyndina skrifaði hún að henni fyndist gaman að ferðast mikið.

Best væri að dvelja í hverju landi í 3-5 daga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×