Aftur var það VAR sem bjargaði Tottenham gegn Man. City

Anton Ingi Leifsson skrifar
Úr leiknum í dag.
Úr leiknum í dag. vísir/getty
Manchester City og Tottenham gerðu 2-2 jafntefli í 2. umferð ensku úrvalsdeildarinnar en eftir mikla dramatík var mark Gabriel Jesus í uppbótartíma dæmt af.

Leikurinn var bráðskemmtilegur en bæði lið eru því með fjögur stig eftir fyrstu tvær umferðirnar.

Það var mikill kraftur í báðum liðum til að byrja með en City komst yfir með marki frá Raheem Sterling. Markið skoraði hann með skalla eftir frábæra fyrirgjöf Kevin de Bruyne.

Þremur mínútum síðar var staðan hins vegar orðin jöfn. Erik Lamela fékk boltann rétt fyrir utan vítateig City og lét ekki bjóða sér það tvisvar.

Hann skrúfaði boltanum innan fótar, skemmtilega, í fjærhornið og Ederson var varnarlaus í markinu. Ekki fast en hnitmiðað. Allt jafnt.

Fjörinu í fyrri hálfleik var ekki lokið því á 35. mínútu skoraði Sergio Aguero annað mark City. Aftur var það Belginn, De Bruyne, sem var arkitektinn.







Lucas Moura var búinn að vera inn á í fimmtán sekúndur er hann jafnaði metin fyrir Tottenham á 56. mínútu. Þessi litli en flinki leikmaður jafnaði með skalla eftir hornspyrnu.

Flestir héldu að City væri að tryggja sér sigurinn í uppbótartíma er Gabriel Jesus skoraði á 91. mínútu en eftir tveggja mínútna VARsjá var markið dæmt af.

Boltinn fór nefnilega af hendi Aymeric Laporte og til Jesus sem skoraði. Michael Oliver, dómari leiksins, fékk meldingu í eyrað og dæmdi markið af.







Þetta er ekki í fyrsta skipti sem þetta gerist hjá þessum sömu liðum en í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar virtist City vera skjóta sér áfram í uppbótartíma. Þá, eins og nú, var markið einnig dæmt af eftir VARsjá.

Þessum frábæra leik lauk því með 2-2 jafntefli og Pep Guardiola, stjóri Man. City, brosti kaldhæðnislegu brosi í leikslok.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira