Sjóböðin eru nú á lista yfir hundrað bestu áfangastaði heims sem tímaritið Time hefur tekið saman. Þar er farið fögrum orðum um Geosea sem er sagt vera hinn fullkomni staður til þess að sjá norðurljósin að kvöldi til á meðan fólk slakar á í vatninu, sem er sagt einstaklega heilsusamlegt til baða.

Aðstaðan í sjóböðunum er með glæsilegasta móti. Byggingin er hönnuð af Basalt arkitektum og eru böðin með útsýni yfir Skjálfanda, Kinnarfjöll og allt norður að heimskautsbaug. Voru böðin opnuð í þeirri von að lengja dvöl ferðamanna á svæðinu og má leiða að því líkum að umfjöllun Time muni einnig hjálpa til í því samhengi.
Í umfjöllun Stöðvar 2 um böðin í september á síðasta ári, skömmu eftir opnun, var rætt við Sigurjón Steinsson, framkvæmdastjóra Geosea, og litið á aðstöðuna. Umfjöllunina má sjá hér að neðan.