Hafnarnes Ver er eitt af aðal útgerðarfyrirtækjunum og fiskvinnslufyrirtækjunum í Þorlákshöfn og einn stærsti vinnustaðurinn, Því eru uppsagnir dagsins mikið reiðarslag.
„Þetta þýðir bara það að við þurfum að stokka upp. Nú fer bara vinna í gang hjá okkur, sem rekum þetta að reyna að finna nýtt hráefni“, segir Ólafur.
Ólafur segir að uppsagnirnar komi fyrst og fremst til vafasamrar og óvísindalegrar ráðgjafar Hafrannsóknarstofnunar við fiskveiðiráðgjöf á sæbjúgum og skeytingarleysis sjávarútvegsráðuneytisins. Hann er ekki sáttur við Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs og landbúnaðarráðherra.
„Því miður, þá tel ég að hann hafi ekki staðið nógu mikið í lappirnar gagnvart Hafró. Hafró er á mjög veikum vísindalegum grunni með þetta, þeir eru ekki búnir að rannsaka þetta, þeir leggja fram tölur þar sem er ekki vísindi á bak við, þetta eru ágiskanir og hann felur sig á bak við Hafró og segist þurfa að hlusta á vísindamennina en þegar vísindamennirnir vita hvað þeir eru að tala um þá er dálítið erfitt þegar ráðherrann þorir ekki að taka ákvörðun, sem er í hag fyrirtækja og starfsfólks í landinu“.

„Við ráðgjöf sína þá getur Hafrannsóknarstofnun ekki tekið mið af, hvorki hagsmunum einstakra fyrirtækja eða einhverra annarra þátta, þeir verða að byggja mat sitt á sínum bestu upplýsingum um vistkerfi sjávar“, segir Kristján Þór.