Umfjöllun og viðtöl: Haukar - Valur 18-33 | Valur niðurlægði Hauka á Ásvöllum

Svava Kristín Gretarsdóttir skrifar
vísir/daníel
Valur valtaði yfir Hauka í stórleik umferðarinnar á Ásvöllum í kvöld, 18-33. Haukar sem áttu aldrei séns í leiknum voru átta mörkum undir í hálfleik, 8-16. 

Gestirnir byrjuðu leikinn af krafti og náðu strax öllum tökum á leiknum. Valur leiddi með sex mörkum eftir 10 mínútur, 1-7. Haukar áttu erfitt uppdráttar í leiknum og þá sérstaklega sóknarlega, stelpurnar gerðu sig seka um ótal tæknifeila sem Valskonur gengu á lagið með og refsuðu með hröðum sóknum og auðveldum mörkum. 

Eins og tölurnar gefa til kynna þá var leikur Hauka afleiddur í dag. Lykilmenn náðu sér ekki á strik og var munurinn átta mörk þegar flautað var til hálfleiks á Ásvöllum, 8-16.

Það varð lítil breyting á leiknum þegar komið var út í síðari hálfleikinn, Valskonur héldu uppteknum hætti og komust strax í 10 marka forystu. Haukarnir náðu ekki að saxa á þá forystu og gáfust upp um miðbik seinni hálfleiks. 16 mörk skyldu liðin að þegar mest lét, 16-31 en leiknum lauk með 15 marka tapi Hauka, 18-33.

Af hverju vann Valur?  

Það gekk allt upp hjá liði Vals í dag enn leikmenn Hauka gerðu þeim þetta líka ansi auðvelt fyrir með því að mæta hreinlega ekki til leiks. Svona spilamennska eins og Haukar sýndu í dag er ekki boðleg gegn jafn sterku liði og Val

Hverjar stóðu upp úr?

Tíu leikmenn Vals komust á blað í dag og má segja að liðsheildin hafi staðið upp úr. Ragnhildur Edda Þórðardóttir og Lovísa Thompson voru þar markahæstar með 6 mörk hvor og Sandra Erlingsdóttir þeim næst með 5 mörk. Díana Dögg Magnúsdóttir var svo atkvæðamest í vörninni með 11 löglegar stöðvanir á meðan Íris Björk Símonardóttir var með yfir 40% markvörslu þar fyrir aftan. 

Hvað gekk illa? 

Haukar áttu erfiðan dag í dag hvert sem litið er, vörn, sókn eða markvarsla, það gekk hreinlega ekkert upp. Útileikmenn liðsins voru með slaka skotnýtingu eða 11 mörk úr 32 skotum, hin sænska Sara Odden var þar með 3 mörk úr 16 skotum. 

Hvað er framundan? 

Í næstu umferð er sannkallaður stórleikur þegar tvö langbestu lið deildarinnar mætast í Origo-höllinni á Hlíðarenda, þar tekur Valur á móti Fram. Á sama tími taka Haukar á móti KA/Þór á Ásvöllum, öll umferðin spilast á laugardaginn, 12. október. 

 

 

Ágúst Jóhannsson messar yfir sínum stúlkum.vísir/daníel
Gústi Jóh: Frammistaðan til fyrirmyndar

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Vals, var að vonum ánægður með frammistöðu liðsins í dag

„Við spiluðum mjög vel, heilt yfir í 60 mínútur. Við keyrðum vel á þær í fyrri hálfleiknum og héldum svo bara áfram á fullum krafti. Það er sama hvar tekið er niður, varnarleikurinn var góður, sóknarleikurinn það sama og við vorum að fá framlag frá mörgum leikmönnum sem er gott“  

„Í minni tíð höfum við alltaf spilað á mörgum leikmönnum og við erum að reyna að bæta í breiddina núna og fjölga þá leikmönnum sem geta hjálpað okkur.“ sagði Gústi sem náði að rúlla liðinu vel í dag og leyfði ungu stelpunum að spila mikið

Ágúst tekur undir það að hafa ekki búist við svona miklum mun á liðunum í dag, hann segir að Haukarnir séu með gott lið og að þær muni stíga upp bráðum. Það eina sem mátti setja útá í leik Vals voru þeir 13 töpuðu boltar sem liðið tapaði, enn Ágúst segist þó ætla að fyrirgefa stelpunum það í þetta skiptið

„Haukarnir eru með flott lið, það vantar þó nokkuð í þeirra lið eins og er svo þær eiga eftir að koma upp en frammistaðan hjá okkur var bara til fyrirmyndar. Það var kannski full mikið óðagot á köflum í leiknum en ég fyrirgef þeim það þegar við vinnum með 15 mörkum“

 



Árni Stefán: Þetta var arfaslakur leikur að okkur hálfu

„Þetta eru sár vonbrigði, ef ég á að vera alveg hreinskilin“ sagði Árni Stefán Guðjónsson, þjálfari Hauka, eftir að liðið hans var niðurlægt á heimavelli

„Við vorum búin að fara vel yfir Valsliðið, við þekkjum hvernig þær eru og hvernig þær spila, hvað þær geta og hvað þær eru góðar. Mér fannst við einfaldlega ekki þora að matcha þær í dag. Við vorum hægar sóknarlega, hlaupum illa til baka og varnarlega stöndum við alls ekki nógu vel“ 

„Það er í raun og vera alveg sama hvernig þú lítur á þennan leik að þá var hann bara arfaslakur að okkur hálfu og það veldur mér vonbrigðum.“ sagði Árni Stefán, afar ósáttur við frammistöðu sinna kvenna í dag

„Það var alveg sama hvað við reyndum að rúlla og rótera af bekknum, það kom aldrei þessi neisti sem vantaði. Við gefum þeim auðvitað leikinn í byrjun í 1-7, það er erfitt á móti Val.“

Árni segir að þjálfarateymið þurfi að taka einhverja ábyrgð á máli en segir jafnframt að það hafi verið sama hvað hann reyndi að gera í dag, hann náði aldrei að kveikja þann neista sem þurfti svo leikmenn myndu vakna

„Það er erfitt þegar hlutirnir sem við erum búin að leggja upp með ganga ekki upp. Þetta eru ekki bara leikmenn, þetta er eitthvað sem við í þjálfarateyminu þurfum að taka á okkur líka. Núna tvo leiki í röð erum við ekki að mæta nógu vel gíraðar inn í leikinn svo þegar á reynir þá erum við að gefa eftir og brotna, það er það sem veldur mér áhyggjum núna.“ sagði Árni Stefán að lokum

 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira