Handbolti

Gestur sleit krossband í annað sinn á rúmu ári

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Gestur fer í aðgerð í lok þessa mánaðar.
Gestur fer í aðgerð í lok þessa mánaðar. fbl/ernir
Gestur Ólafur Ingvarsson, leikmaður Aftureldingar, leikur ekki meira með liðinu á þessu tímabili.

Gestur meiddist illa í leik Aftureldingar og FH í Olís-deild karla á sunnudaginn og nú er komið í ljós að hann sleit krossband.

Þetta er í annað sinn á 14 mánuðum sem hann slítur krossband í vinstra hné. Gests bíður því löng og ströng endurhæfing á nýjan leik.

„Hann fer í aðgerð í lok október. Tímabilinu er lokið hjá honum. Þetta er gríðarlegt áfall fyrir hann og alla sem standa að þessu,“ sagði Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar, í samtali við Vísi í dag.

Gestur hafði byrjað tímabilið vel og skorað ellefu mörk í Olís-deildinni.

„Hann er ákveðinn í að koma sterkur til baka. Síðast sneri hann til baka sem betri leikmaður. Við stöndum þétt við bakið á honum,“ sagði Einar Andri. „Nú þurfum við þjappa okkur saman og fleiri að stíga upp. Við þurfum að finna lausnir.“

Einar Andri á síður von á því að Mosfellingar leiti að utanaðkomandi liðsstyrk.

„Við erum ekkert farnir að skoða það. Þetta er nýskeð og við erum að reyna að ná áttum. Félagaskiptaglugginn lokar um næstu mánaðarmót og opnar svo aftur í janúar. Við sjáum bara til en það eru ekki miklir möguleikar að fá leikmenn á þessum tímapunkti. Ég á ekkert sérstaklega von á því en við erum orðnir nokkuð fámennir þarna hægra megin,“ sagði Einar Andri.

Afturelding er í 4. sæti Olís-deildarinnar með sex stig. Næsti leikur liðsins er gegn Val á laugardaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×