Ökumaður bifreiðar sem hafnaði utan vegar í Hveradalabrekku á Suðurlandsvegi, oft nefnd Skíðaskálabrekkan, var fluttur slasaður á slysadeild í Fossvogi skömmu eftir hádegi í gær.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Suðurlandi missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni og hafnaði utan vegar. Fyrsta tilkynning benti til þess að um alvarlegt slys væri að ræða en þegar á slysstað var komið reyndust meiðsli ökumannsins minni en talið var.
Maðurinn var kominn til meðvitundar þegar viðbragðsaðila bar að garði en var illa áttaður. Ekki fengust upplýsingar um líðan hans í dag. Þá er ekki vitað um tildrög slyssins.
Fluttur til Reykjavíkur eftir slys í Skíðaskálabrekkunni
Kristín Ólafsdóttir skrifar
