Að sögn Gísla Björnssonar, yfirmanns sjúkraflutninga á Vesturlandi, var ljóst þegar tilkynnt var um slysið að um alvarlegt slys væri að ræða þar sem hinir slösuðu voru fastir undir bílnum. Sjúkrabílar frá Akranesi, Borgarnesi, Grundarfirði, Ólafsvík og Stykkishólmi voru kallaðir út og í kjölfarið var óskað eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar.

Fjórir sjúkraflutningamenn frá Reykjavík fóru með þyrlum Landhelgisgæslunnar á vettvang og voru fjórir fluttir á sjúkrahús í Reykjavík með flugi, þar af tveir alvarlega slasaðir, og lenti fyrri þyrlan á Landspítalanum í Fossvogi um 14:40 í dag og sú seinni tíu mínútum síðar. Sá fimmti var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabíl.
