Yovanovitch greindi frá því að hún teldi að um hafi verið að ræða samstillt átak gegn sér, átak sem hafi verið byggt á staðhæfingum sem ekkert ættu skylt við raunveruleikann. Yovanovitch fór fyrir þingnefnd í gær og ræddi hún við þingmenn í yfir níu klukkutíma, þrátt fyrir að utanríkisráðuneytið hafi bannað henni að mæta. AP greinir frá.
Yovanovitch var kölluð heim frá Úkraínu í maí síðastliðnum eftir að hafa starfað sem sendiherra í Kænugarði frá ágústlokum ársins 2016. Á sama tíma er Rudy Giuliani, fyrrverandi borgarstjóri New York og persónulegur lögmaður Bandaríkjaforseta, sagður hafa gert tilraunir til þess að fá úkraínsk stjórnvöld til þess að rannsaka ásakanir um spillingu á hendur fyrrum varaforsetanum Joe Biden og syni hans Hunter sem starfaði með olíufyrirtæki í landinu.
Kastað fyrir úlfana þar sem hún stóð í vegi fyrir Trump
Einn þingmannanna sem sátu yfir vitnisburði Yovanovitch var demókratinn Sean Patrick Maloney, Maloney segir Yovanovitch hafa þurft að gera hlé á máli sínu þegar hún minntist þess hvernig henni var „kastað fyrir úlfana.“„Fyrir mér er það morgunljóst að henni var vikið úr starfi vegna þess að hún var þyrnir í auga þeirra sem sóttust eftir því að nýta sér úkraínsk stjórnvöld til eigin hagsmuna. Trump forseti er þar með talinn,“ sagði Maloney.
Annar demókrata, Denny Heck frá Washington-ríki, sagði í samtali við fjölmiðla að vitnisburður Yovanovitch hafi verið áhrifaríkur, honum þætti það vera heiður að fá að heyra hennar sögu.
Viðstaddir Repúblikanar gagnrýndu hins vegar ferlið, lögmenn Bandaríkjaforseta ættu að fá að spyrja sinna spurninga, Jim Jordan þingmaður frá Ohio varði brottvikningu Yovanovitch og sagði að forsetinn hefði rétt á að skipa hvern sem hann vildi sem sendiherra.