Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - HK 26-22 | Stjarnan skildi HK eftir á botninum

Smári Jökull Jónsson skrifar
HK-ingar eru eina stigalausa lið deildarinnar.
HK-ingar eru eina stigalausa lið deildarinnar. vísir/daníel
Stjarnan vann afar mikilvægan sigur á HK í botnslag Olís-deildar karla í handknattleik í dag. Staðan var jöfn í hálfleik en slök byrjun HK í síðari hálfleik varð þeim að falli í dag.

Leikurinn var jafn til að byrja með en fljótlega fór HK að ná vel saman í vörninni og setja Stjörnuna í alls konar vandræði. Þeir náðu oft að klukka sóknarmenn Stjörnunnar fremur auðveldlega og það var í raun bara Ari Magnús Þorgeirsson sem náði að finna glufur.

HK náði þriggja marka forskoti en þegar Stjarnan breytti um í vörninni fór að ganga betur hjá þeim. Þeir jöfnuðu fyrir hlé og í hálfleik var staðan 13-13.

Byrjun seinni hálfleiks var svo skelfileg hjá HK. Þeir skoruðu aðeins eitt mark á fyrstu 10 mínútunum og skyndilega var staðan orðin 20-14 fyrir Stjörnuna.

Eftir það litu heimamenn ekki um öxl. Þeir héldu muninum í 3-5 mörkum og unnu að lokum fjögurra marka sigur, þeirra fyrsti í deildinni á tímabilinu.

Með sigrinum fer Stjarnan upp fyrir Fram og Val í 9.sæti deildarinnar, en þau liðð eiga leik til góða. HK er stigalaust á botninum. 

Af hverju vann Stjarnan?

Þegar þeir breyttu yfir í 5-1 vörn skelltu Stjörnumenn í lás í vörninni. Þeir þvinguðu HK í erfiðar sendingar og HK-ingar töpuðu ótrúlega mörgum boltum í sóknarleiknum.

Fyrir aftan vörnina átti Sveinbjörn Pétursson góðan leik í markinu, en hann sneri aftur í markið vegna meiðsla Stephen Nielsen. Sveinbjörn var með nærri 40% markvörslu og var frábær.

Þessir stóðu upp úr:

Ari Magnús Þorgeirsson svaraði gagnrýni Rúnars þjálfara á réttan hátt og átti sinn besta leik á tímabilinu. Hann skoraði 6 mörk og þó svo að aðeins hafi dregið af honum undir lokin skilaði hann sínu og gott betur.

Eins og áður segir var Sveinbjörn mjög góður í markinu og þá nýtti Leó Snær Pétursson sín færi vel og var markahæstur.

Hjá HK var Davíð Svansson ágætur í markinu og varði mikið af dauðafærum. Pétur Árni var atkvæðamestur í sókninni en líkt og aðrir tapaði hann mörgum boltum.

Hvað gekk illa?

Byrjun HK í seinni hálfleik var slök. Þeir spiluðu hægan sóknarleik og reyndu mikið af erfiðum sendingum og fengu hraðaupphlaup í bakið. Sveinbjörn var þeim erfiður í markinu og svo fóru þeir illa að ráði sínu þegar þeir virtust vera að ná smá áhlaupi í síðari hálfleik.

Vilhelm Gauti þjálfari hefði eflaust viljað hafa eitt leikhlé til góða þá, til að róa menn aðeins niður, en hann nýtti bæði leikhléin sín á fyrstu tíu mínútum síðari hálfleiks.

Hvað gerist næst?

Framundan er landsliðspása og liðin fá tækifæri til að stilla strengina betur og veitir sjálfsagt ekki af. 

Stjarnan heldur næst til Akureyrar og mæta þar KA í öðrum afar mikilvægum leik. Sigur þar myndi koma þeim frá fallsætunum.

HK á leik gegn öðrum fallkandídötum í næstu umferð þegar þeir mæta Frömurum. Ef einhvern tíman er hægt að segja að lið verði að vinna leik, þá er það hjá HK fyrir þann leik.

Rúnar, Það er ekkert meira um málið að segja
Rúnar Sigtrygsson vildi lítið segja um viðtalið fræga í vikunni þar sem hann gagnrýndi Ara Magnús Þorgeirsson leikmann liðsins.vísir/bára
„Þetta var mikilvægt og það sást. Í fyrri hálfleik þá vorum við hægir þegar leið á og hlutirnir ekki alveg að ganga með okkur, óöryggi að vera ekki búnir að vinna,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari Stjörnunnar eftir sigur liðsins gegn HK í TM-höllinni í dag.

„Í seinni hálfleik þegar við erum komnir í forystu og búnir að snúa leiknum um níu mörk þá er samt ekki tilfinningin þannig að þetta sé komið. Við fáum einhverjar tvær mínútur og það kemur smá skjálfti í okkur þó þeir hafi aldrei komist nær en þrjú mörk. Virkilega ánægður með þenann sigur, líka í þessu róti að hafa náð að halda haus.“

Stjarnan hóf leikinn í 6-0 vörn sem gekk ekki sem skyldi og skipti fljótlega yfir í 5-1 vörn.

„Vörnin var ekki að ganga vel í fyrri hálfleik og við vorum frekar flatir og máttlausir. Um leið og við skiptum í 5-1 þá  fórum við úr stöðunni 8-11 yfir í að jafna fyrir hálfleik. Menn voru grimmari og betri og svo var Sveinbjörn með endurkomu í markinu sem skipti gríðarlegu máli,“ en Sveinbjörn Pétursson markvörður var hættur handknattleiksiðkun eftir síðasta tímabil en sneri aftur vegna meiðsla Stephen Nielsen.

„Hann æfði með okkur fyrir þennan leik og væntanlega verður hann eitthvað ónýtur á næstunni. Hann mun hjálpa okkur eins og hægt er en hann getur auðvitað dottið út. Þetta eru bakmeiðsli og hann getur verið frá þessa vikuna eða næstu. Við geymum hann í bómul og notum í leikjum.“

Eins og áður segir meiddist Stephen Nielsen í leiknum gegn ÍR og staðan á honum frekar óljós.

„Hann er ekki kominn með endanlega greiningu en þetta er ekki eins slæmt og á horfðist en hann verður væntanlega ekkert með fyrir jól.“

Í vikunni hefur mikið verið rætt um viðtal sem Rúnar fór í á Stöð 2 fyrir leikinn gegn ÍR. Þar gagnrýndi hann Ara Magnús Þorgeirsson, leikmann Stjörnunnar, harðlega.

„Við tækluðum það á vellinum, það bara sást í dag,“ sagði Rúnar stuttorður þegar blaðamaður spurði hvort málið hefði verið rætt í hópnum.

Var málið rætt í hópnum?

„Nei. Eða jú, örugglega innan hópsins. Svarið var á vellinum í dag og það þarf ekkert að segja neitt meira.“

Og er allt í góðu milli þín og Ara Magnúsar?

„Við höfum rætt málin og hann svaraði fyrir sig. Það er ekkert meira um málið að segja.“

Vilhelm Gauti: Þeir verða að fara að læra og þroskast hratt
Úr leik HK og Fjölnis fyrr á tímabilinu.Vísir/Daníel
Vilhelm Gauti Bergsveinsson var þjálfari HK í dag þar sem Elías Már Halldórsson var í leikbanni, en Vilhelm Gauti er að öllu jöfnu aðstoðarþjálfari liðsins.

HK tapaði sjötta leiknum á tímabilinu og er enn án sigurs í Olís-deildinni. Blaðamaður spurði Vilhelm Gauta hvernig hljóðið hefði verið í mönnum inni í klefa eftir leik.

„Það var ekkert hljóð, bara hljóðlaust,“ sagði hann snaggaralega.

„Jú jú, auðvitað er þetta þungt og súrt. Við þurfum að líta svolítið í eigin barm. Það er búið að tala út í eitt um þessi atriði, stemmningu og baráttu og þar fram eftir götunum. Ef maður fær það ekki fram á vellinum hefur það lítið að segja.“

Í fyrri hálfleik náði HK góðum kafla þar sem vörnin small saman og þeir komust meðal annars í þriggja marka forystu. Byrjun seinni hálfleiks var hins vegar slök og skoraði liðið aðeins eitt mark á fyrstu tíu mínútum seinni hálfleiks.

„Það er alveg rétt. Þetta er ekkert fyrsti leikurinn þar sem fyrstu tíu í seinni hálfleik eru erfiðar. Það er vandamál sem við þurfum að finna lausn á. Við erum að koma ofboðslega flatir inn í seinni hálfleikinn í öllum þessum sex leikjum. Við erum að tapa þeim kafla með 3-5 mörkum. Það er bara of dýrt“

„Við erum ekki lið sem höfum efni á því að koma værukærir inn eftir hálfleikinn. Við þurfum að spila í 60 mínútur með bensínið í botni allan tímann og halda haus. Það er verkefnið okkar í vetur að stilla þetta svolítið af.“

HK missti einn sinn atkvæðamesta leikmann, Blæ Hinriksson, útaf vegna meiðsla í fyrri hálfleik og kom hann ekkert meira við sögu.

„Ég veit að hann var allavega ekki þannig að hann gæti spilað meira í leiknum. Hann sneri eitthvað upp á ristina á sér, steig ofan á einhvern held ég. Auðvitað var vont að missa hann af velli í sóknarleiknum en við erum með 14 manns á skýrslu og það verður bara einhver að stíga upp.“

HK tapaði mjög mörgum boltum í sókninni og átti fjölmargar sendingar inn á línuna sem gengu ekki upp.

„Það er rosalega erfitt að standa hér og fara ekki með einhverjar klisjur í loftið. Við verðum bara að fara að girða okkur í brók. Við getum ekki farið í næstu 16 leiki tímabilsins svona, ef við gerum það fer þetta bara 22-0. Ég hef bara núll áhuga á því.“

„Við þurfum að fara að læra, læra að hlusta þegar við erum inni á vellinum. Læra að bregðast við atriðum, sjá hvað gengur upp og hvað ekki. Við vorum of mikið að hnoða, senda einhverjar tæpar sendingar og fá hraðaupphlaup í bakið. Sérstaklega þegar við minnkuðum í þrjú mörk þá áttum við 2-3 línusendingar sem klikka,“ sagði Vilhelm Gauti og hélt áfram.

„Mér dettur ekki í hug að fela mig á bakvið ungt lið. Þeir verða að fara að læra og þroskast hratt. Nú höfum við 17 daga pásu til að hækka lífaldurinn um 5 ár.“

Ari Magnús: Þetta var alveg rétt sem Rúnar var að segja
Ari Magnús sagði engin vandamál vera á milli síns og Rúnars Sigtryggssonar þjálfara.Vísir/Bára
„Hrikalega gott að ná í tvö stig, loksins að vinna einn leik. Þetta var góður seinni hálfleikur, góð vörn og við héldum bara áfram,“ sagði Ari Magnús Þorgeirsson í samtali við Vísi eftir sigur Stjörnunnar á HK í dag.

Sigurinn var sá fyrsti hjá Stjörnunni í Olís-deildinni á tímabilinu.

HK skoraði aðeins eitt mark á fyrstu 10 mínútum síðari hálfleiks og komst Stjarnan þá í 20-14 eftir að staðan í leikhléi var 13-13.

„Við spiluðum góða vörn og lokuðum á allt það sem þeir voru að gera sóknarlega. Svo vorum við að gera ágætlega í sókninni og fengum hraðaupphlaup í kjölfarið,“ bætti Ari Magnús við.

Sveinbjörn Pétursson sneri aftur í mark Stjörnunnar vegna meiðsla Stephen Nielsen og átti frábæran leik.

„Hrikalega gott að fá hann aftur, flottur kallinn.“

Í vikunni fékk Ari Magnús nokkuð harða gagnrýni frá Rúnari Sigtryggssyni þjálfara liðsins þegar sá síðarnefndi mætti í viðtal hjá Stöð 2.

„Maður er að verða 33 ára, ef ég hefði verið 22 ára þá hefði ég kannski brugðist öðruvísi við. Ég var ekkert að taka þessu það alvarlega. Maður þarf að svara inni á vellinum.“

Það gerði Ari heldur betur, hann skoraði 6 mörk og átti sinn besta leik á tímabilinu.

„Ég átti ágætan leik, loksins gat ég eitthvað. Þetta er alveg rétt sem Rúnar var að segja, ég hef ekkert getað,“ bætti Ari við og sagði engin vandamál vera á milli hans og Rúnars.

„Alls ekki, alls ekki.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira