Tvítugur karlmaður sem grunaður er um tilraun til manndráps hefur nú verið látinn laus úr haldi. Fórnarlambið var á þeim tíma kærasta hans.
Vísir greindi frá málinu á mánudaginn fyrr í þessari viku en þá var sagt af því að maðurinn væri í einangrun. Málið var rannsakað sem tilraun til manndráps.
Unnsteinn Elvarsson, verjandi mannsins, staðfestir þetta í stuttu samtali við fréttastofu; að maðurinn sé nú laus úr haldi.
„Í mínum huga var enginn forsenda fyrir því að halda manninum. Í fyrstu var þetta byggt á rannsóknarhagsmunum sem eru ekki lengur til staðar. Enda er búið að yfirheyra alla sem í hlut eiga að mínu mati,“ segir Unnsteinn.
Hann bendir á að grundvöllur gæsluvarðhalds hafi verið rannsóknarhagsmunir í fyrstu, þá almannahagsmunir en þeim hagsmunum sé ekki til að dreifa lengur.
Uppfært klukkan 19:55:
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sendi frá sér eftirfarandi tilkynningu um málið snemma á sjöunda tímanum:
Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag kröfu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna yfir karlmanni um tvítugt vegna alvarlegrar líkamsárásar í Reykjavík um síðustu helgi. Maðurinn er því laus úr haldi, en úrskurðurinn hefur verið kærður til Landsréttar.
Áður hafði lögreglan tekið ákvörðun um að karlmanninum yrði gert að sæta sex mánaða nálgunarbanni gagnvart brotaþola.
Maðurinn var handtekinn á vettvangi miðsvæðis í borginni um síðustu helgi og í kjölfarið úrskurðaður í sex daga gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna, en það rann út í dag.
Ungur maður grunaður um tilraun til manndráps laus úr haldi
Tengdar fréttir
Tvítugur karlmaður í einangrun grunaður um tilraun til manndráps
Tvítugur karlmaður var um helgina úrskurðaður í gæsluvarðhald til næstkomandi föstudags, 25. október, grunaður um mjög grófa líkamsárás gagnvart kærustu sinni í miðbæ Reykjavíkur aðfaranótt laugardags.