Handbolti

Þorgrímur Smári: Svo tuðar hann stundum en hann á það alveg inni

Smári Jökull Jónsson skrifar
Þorgrímur Smári skaut aðeins á bróður sinn eftir leikinn í kvöld.
Þorgrímur Smári skaut aðeins á bróður sinn eftir leikinn í kvöld. Vísir/Bára
„Eins og Matthías hornamaður sagði eftir fyrsta sigurleikinn, „We are on a run“, og eftir það komu tveir sigrar þannig að ég er gríðarlega ánægður. Þrír sigrar og sex stig. Mikilvægt,“ sagði Þorgrímur Smári Ólafsson Framari eftir sigurinn á HK í kvöld.

„Varnarlega vorum við drulluflottir allan leikinn. Við vorum að klikka á aragrúa af flottum færum í fyrri hálfleik en fengum síðan smá tíma í hálfleik til að fara yfir okkar plan. Ég held að við höfum bara staðið okkur vel í seinni hálfleik í heildina.“

Framarar eru nú komnir með sex stig í deildinni eftir fjóra tapleiki í upphafi móts.

„Við töpuðum á móti Haukum og Aftureldingu í leikjum þar sem við vorum 6-7 mörkum yfir. Við vorum sjálfum okkur verstir og erum kannski að læra af því, erum að taka af skarið í staðinn fyrir að vera hræddir á köflum. Ég er mjög sáttur með hvernig liðið var í dag.“

Bróðir Þorgríms Smára, Lárus Helgi, var öflugur í marki Framara í dag og gerði HK-ingum lífið leitt.

„Eina sem ég þoli ekki með Lalla er að hann getur ekki skorað yfir allan völlinn, það er eina vesenið með hann,“ sagði Þorgrímur Smári en Lárus klikkaði í eitt skipti í dag þegar hann skaut frá eigin marki þegar enginn var í marki HK.

„Svo tuðar hann stundum en hann á það alveg inni,“ sagði Þorgrímur Smári að lokum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×