Handbolti

Fyrsti leikur toppliðsins í átján daga er stórleikur á Ásvöllum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá leik Hauka og ÍBV í vor.
Frá leik Hauka og ÍBV í vor. Vísir/Vilhelm
Haukarnir taka á móti Eyjamönnum á Ásvöllum í kvöld í fyrsta leik Olís deildar karla í handbolta eftir landsleikjahlé.

Þetta er stórleikur sjöundu umferðar enda hafa þessi lið spilað ófáa úrslitaleikina undanfarin ár og eru áfram í hópi toppliðanna í vetur. Haukar eru á toppi deildarinnar en Eyjamenn eru þremur stigum neðar í fimmta sætinu.

Leikurinn hefst klukkan 18.30 og verður í beinni á Stöð 2 Sport 3.

Haukarnir nýttu sér tap ÍR-inga í síðustu umferð og komust upp í efsta sæti deildarinnar eftir sigur á Val. Haukar eru eina taplausa lið deildarinnar.

Haukar spiluðu síðast leik 12. október síðastliðinn og hafa því beðið í átján daga eftir þessum leik. Olís deildin fór í landsleikjahlé vegna vináttuleikja við Svía.

Eyjamenn unnu fjóra fyrstu leiki sína en hafa tapað tveimur síðustu leikjum sínum með einu marki og unnu síðast leik á móti Val fyrir nákvæmlega mánuði síðan.

Haukar slógu ÍBV út úr úrslitakeppninni í vor eftir sigur í oddaleik á Ásvöllum. Leikurinn í kvöld verður síðasti innbyrðis leikur liðanna síðan þá. Haukar unnu alla þrjá heimaleiki sína í umræddu undanúrslitaeinvígi liðanna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×