Skoðun

Björn og Sveinn

Óttar Guðmundsson skrifar
Bókaútgáfan Sæmundur á Selfossi endurútgefur þessa dagana merkilegt skáldverk, Björn og Sveinn, eftir Megas. Bókin fjallar um ferðalag þeirra feðga Axlar-Björns og Sveins skotta um undirheima Reykjavíkur. Þessir Snæfellingar voru þekktir misindismenn á 16du og 17du öld en fá nýtt líf í reykvískum samtíma. Þeir verða kóngar í heimi smákrimma, undirmálsmanna og vafasamra kvenna. Feðgarnir bera fulla ábyrgð á helstu hremmingum hins unga lýðveldis. Þeir standa fyrir illvirkjum eins og gosinu í Vestmannaeyjum og rauðsokkahreyfingunni auk þess sem þeir gerðu Austurstræti að göngugötu.

Bókin kom út fyrir 25 árum og fékk misjafna umsögn. Dagar eintómra fimm-stjörnu dóma voru ekki runnir upp svo að ritdómarar leyfðu sér hreinskiptni í báðar áttir. Bókin var kölluð vitundar­lítið orðafyllerí og Helgarpósturinn sagði hana langdregnustu skáldsögu ársins. Aðrir kölluðu bókina meistaraverk.

Þolinmóðum lesanda er ríkulega launað. Bókin er hafsjór af orðaleikjum, staðreyndum og hálfsannleika þar sem fólk er leitt um undirheima borgarinnar. Lesandinn kíkir inn á gamla Zarinn (Keisarann), lærir að búa til amfetamín og kynnist margs konar kynlífsfrávikum og furðufuglum.

Bókin reyndist of flókin lesning innan um léttmeti afþreyingariðnaðarins. Hún kom út í 400 eintökum sem seldust upp á nokkrum árum og var eftir það ófáanleg.

Það er gleðiefni að bókin skuli aftur vera aðgengileg. Björn og Sveinn deila sess með Sturlungu og fleiri öndvegisritum sem talin voru of löng og ólesandi. Sennilega verður dómur framtíðarinnar um Björn og Svein að þeir feðgar séu viðkvæm íslensk menningarblóm bæði í sögu- og bókmenntalegu tilliti.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×