Innlent

Vig­dís sæmd heiður­doktors­nafn­bót við HA

Atli Ísleifsson skrifar
Frú Vigdís Finnbogadóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann á Akureyri.
Frú Vigdís Finnbogadóttir sæmd heiðursdoktorsnafnbót við Háskólann á Akureyri. Stjórnarráðið
Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, var sæmd heiðursdoktorsnafnbók við Háskólann á Akureyri síðastliðinn föstudag.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti ávörpuðu gesti á málþingi HA þar sem fjallað var um víðtæk áhrif Vigdísar á samfélagið.

Forsætisráðherra fjallaði í ræðu sinni um áhrif Vigdísar á sviði umhverfismála, jafnréttismála og menningarlegrar fjölbreytni og hafði orð á hinum miklu áhrifum Vigdísar fyrir að vera fyrirmynd heillar kynslóðar sem ólst upp við það að kona gegndi embætti forseta Íslands.

„Ég er ekki í nokkrum vafa um að Vigdís Finnbogadóttir varð fyrirmynd heillar kynslóðar, karla og kvenna. Hugmyndin um að Ísland gæti náð máli í jafnréttismálum, umhverfismálum og á sviði menningarlegrar fjölbreytni varð í raun til með henni. Og ég veit það sjálf að Vigdís hefur verið mín fyrirmynd því ég veit að þó að ferill hennar hafi verið farsæll mátti hún oft mæta mótvindi og gerði það alltaf af reisn.

Áhrif Vigdísar fólust nefnilega ekki aðeins í því að vera kjörin forseti þó að forsetakjörið eitt væri fágæt bylting heldur líka í því hvernig hún gegndi embættinu með sóma í sextán ár, reyndist framsýn í sínum áhersluatriðum og hefur haldið áfram að vera mjög virk og hafa mikil áhrif með sínum málflutningi. Fyrir það er ég þakklát og ég veit að þjóðin er það líka,“ sagði Katrín, en lesa má ræðuna í heild sinni á vef stjórnarráðsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×