Innlent

500 milljónum úthlutað úr Loftslagssjóði á fimm árum

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Í dag verður opnað fyrir umsóknir um styrki úr nýjum Loftslagssjóði.
Í dag verður opnað fyrir umsóknir um styrki úr nýjum Loftslagssjóði. Vísir/Vilhelm
Fimmhundruð milljónum verður úthlutað úr Loftslagssjóði á næstu fimm árum. Formlega verður opnað fyrir umsóknir í sjóðinn í dag en stjórnarformaður segist þegar skynja mikinn áhuga. Loftslagssjóður er nýr samkeppnissjóður sem heyrir undir umhverfis- og auðlindaráðherra. Hlutverk sjóðsins er að styðja við nýsköpunarverkefni á sviði loftslagsmála og verkefni sem lúta að kynningu og fræðslu á loftslagsmálum að sögn Hildar Knútsdóttur, stjórnarformanns Loftslagssjóðs.

„Það geta allir sótt um í sjóðinn. Við ákváðum að hafa þetta bara alveg opið núna af því að við vildum ekki útiloka neinar frábærar hugmyndir fyrir fram þannig að það geta bara núna allir sótt um í sjóðinn, hvort sem það eru félagasamtök eða stofnanir eða sveitarfélög eða einstaklingar eða fyrirtæki en það styrkir umsóknir ef að það er samstarf,“ segir Hildur.

Í hádeginu fór fram kynningarfundur um sjóðinn en í dag verður opnað fyrir umsóknir. „Núna verður lagt til sjóðsins 140 milljónir, það eru sem sagt peningar sem að renna til hans 2019 og 2020. Það eru um 140 milljónir núna en þetta eru sem sagt 500 milljónir á fimm árum.“

Það ræðst af fjölda og gæðum umsókna hversu mörgum styrkjum verður úthlutað. „Styrkirnir til kynningar og fræðslu eru að hámarki fimm milljónir og styrkirnir til nýsköpunarverkefna eru að hámarki 10 milljónir og við erum ekki búin að ákveða hversu margir styrkir fara í hvern flokk, það verða bara óháðir sérfræðingar sem eru skipaðir af Rannís sem fara yfir umsóknirnar,“ segir Hildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×