Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður Dómarafélagsins og dómari við Héraðsdóm Reykjavíkur, segir verulegt áhyggjuefni að pólsk yfirvöld styðji íslenska ríkið í Landsréttarmálinu svonefnda. Málið bíður sem kunnugt er afskipta yfirdeildar Mannréttindadómstólsins.
Mannréttindadómstólinn komst að þeirri niðurstöðu í mars að Sigríður Á. Andersen hefði brotið lög við skipan dómara í Landsrétt. Sigríður fór ekki að tillögu hæfisnefndar við skipanina heldur skipti fjórum sem voru á blaði hæfisnefndar út fyrir aðra fjóra umsækjendur.
Íslenska ríkið áfrýjaði niðurstöðu Mannréttindadómstólsins til yfirdeildarinnar. Ríkisútvarpið greindi frá því í gær að þrír aðilar hefðu skilað skriflegri grienagerð til yfirdeildarinnar vegna málsins. Umboðsmaður almennings í Georgíu, mannréttindasamtökin The Helsinki Foundation for Human Rights í Varsjá og ríkisstjórn Póllands.
Fyrri tveir aðilarnir styðja niðurstöðu Mannréttindadómstólsins frá því í mars.
Forðast eigi slíkan félagsskap
Fram kemur í greinagerð ríkisstjórnar Póllands að Landsréttarmálið skipti afar miklu máli og tengist breytingum sem gerðar hafi verið í Póllandi. Breytingarnar hafa mætt mikilli mótspyrnu og hafa stjórnvöld þar í landi verið sökuð um fjandsamlega yfirtöku.
Kjartan Bjarni segir í færslu á Facebook að óháð öllum skoðunum um Landsréttarmálið þá sé stuðningur pólskra stjórnvalda í málinu verulegt áhyggjuefni.
„Pólskir dómarar hafa undanfarin ár sætt ofsóknum og skipulögðum rógsherferðum stjórnar PiS-flokksins sem vill afnema sjálfstæði dómstóla, beita kynbundnu misrétti og takmarka sjálfsögð grundvallarréttindi hinsegin fólks,“ segir Kjartan Bjarni.
„Íslensk stjórnvöld eiga forðast slíkan félagsskap eins og heitan eldinn.“
Í greinagerð íslenska ríkisins segir að mikilvægt sé að greina málið frá deilum yfirvalda í öðrum Evrópuríkjum við dómstóla þar í landi.
Málið verður tekið fyrir hjá yfirdeildinni þann 5. febrúar.