Drengurinn sem leitað er að í Núpá heitir Leif Magnus Grétarsson Thisland. Hann er til heimilis að Heiðarvegi 58 Vestmannaeyjum. Leif Magnús er 16 ára gamall, fæddur í Noregi árið 2003. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni á Norðurlandi eystra.
Leif Magnus féll í ána á miðvikudagskvöld þegar hann var að aðstoða bónda við að hreinsa krap frá inntaki en við Núpá er heimarafstöð, lón og stífla.
Lögreglunni á Norðurlandi eystra barst tilkynning um slysið klukkan 22 á miðvikudagskvöld. Strax þá voru allir tiltækir viðbragðsaðilar kallaðir út sem og þyrla Landhelgisgæslunnar.
Hundruð manna hafa komið að leitinni, meðal annars kafarar frá sérsveit ríkislögreglustjóra og björgunarsveitarmenn sem eru sérþjálfaðir í straumvatnsbjörgun.
Aðstæður til leitar hafa verið mjög erfiðar og krefjandi og í raun hættulegar; mikil ofankoma, skafrenningur og mjög kalt. Þá er mikill krapi í sjálfri ánni og er til að mynda ekki fyrirhugað að leita í ánni sjálfri í dag vegna mikillar hættu á krapaflóði.
Hermann Karlsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, segir að aðstæður til leitar séu skárri í dag en í gær. Þó sé enn þá þungbúið og éljagangur og ekki eins bjart yfir og viðbragðsaðilar höfðu vonast til.
Bæði verður notast við þyrlu Landhelgisgæslunnar sem og dróna við leitina í dag og ætti þá að fást eins góð yfirsýn yfir slysstað og nærliggjandi vettvang og mögulegt er.