Vísir greindi frá því í morgun að íslenska CrossFit konan Katrín Tanja hafi fengið á sig „DNF“ eða „Kláraði ekki“ í fyrstu greininni á CrossFit mótinu í Dúbaí en núna vitum við meira.
Katrín Tanja Davíðsdóttir ákvað nefnilega að sleppa fyrstu greininni á Dubai CrossFit Championship þar sem hún glímir við bakmeiðsli.
Katrín Tanja meiddist á baki á æfingu í síðustu viku og hefur ekki náð sér af þeim. Þetta kemur fram í frétt hjá Mourning Chalk Up.
Katrín Tanja er samt ekki úr leik því hún má halda áfram og taka þátt í hinum greinum mótsins. Meiðslin eru samt enn til staðar og því er mikil óvissa með framhaldið hjá henni.
Katrín fékk það samt staðfest frá mótshöldurunum að hún mætti halda áfram keppni treysti hún sér til þess. Hún fékk 0 stig fyrir fyrstu grein og er því komið 90-100 stigum á eftir bestu konunum á mótinu.
„Ég var að vona að ég væri orðin nógu góð til að keppa. Mér leið ekki nógu vel með sandpokann til að taka þá áhættu. Ég á möguleika á því að halda áfram en við verðum bara að bíða og sjá til.,“ sagði Katrín Tanja við Tommy Marquez á Mourning Chalk Up.
Það er ekki enn vitað hvernig hinar æfingarnar í dag verða en næsta keppni mun þó ekki fara fram á ströndinni eins og sú í morgun.

