Fótbolti

Eigandi félags í ensku úrvalsdeildinni hótar að greiða ekki laun

Anton Ingi Leifsson skrifar
Harry Maguire er fyrirliði Manchester United, sigursælasta félagsins í ensku úrvalsdeildinni frá því henni var komið á laggirnar 1992.
Harry Maguire er fyrirliði Manchester United, sigursælasta félagsins í ensku úrvalsdeildinni frá því henni var komið á laggirnar 1992. vísir/getty

Tíðinda er að vænta úr enska boltanum í dag en félögin tuttugu úr úrvalsdeildinni munu þá funda um hvernig eigi að koma deildinni aftur af stað. UEFA krefur deildirnar um svör fyrir 25. maí til þess að geta ákveðið hvað verður um Meistara- og Evrópudeildina.

Fundurinn fer fram nú í morgunsárið en óvíst er hversu lengi hann mun standa yfir. Talið er að leikmönnum verði svo greint frá því að þeir eigi að mæta til æfinga síðar í vikunni en mörg lið á Englandi hafa ekki æft í tæpa tvo mánuði.

Einhverjir leikmenn hafa lítinn sem engan áhuga á því að byrja að æfa aftur á meðan faraldurinn stendur yfir. Samkvæmt heimildum enskra miðla verður þeim þó sagt að það sé öruggara að byrja æfa heldur en að fara út í matvörubúð.

Sumir leikmenn eru sagðir ætla að ganga það langt að neita að mæta til æfinga. Sky Sports hefur eftir eiganda eins félags í deildinni að hann muni neita að borga laun þeirra leikmanna sem ekki mæta til æfinga á tilsettum tíma. Annar framkvæmdarstjóri segir að ef leikmönnum líði illa að mæta á æfingar - ættu þeir ekki að mæta. Heilsa þeirra sé í fyrsta sæti.

Úrvalsdeildin hefur unnið að tillögu varðandi það að koma deildinni aftur í gang. Tillagan hefur verið send ríkisstjórn Englands og heilbrigðisyfirvöldum. Leikmenn og þjálfarar munu einnig hittast í vikunni og ræða málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×