Tæplega 1.500 fyrirtæki hafa sótt um og fengið samþykkta greiðslufresti á lánum sínum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Samkeppniseftirlitið veitti undanþágu fyrir samkomulagi um tímabundna greiðslufresti á lánum fyrirtækja þann 23. mars. Aðilar samkomulagsins eru Arion banki, Íslandsbanki, Landsbankinn, Kvika, sparisjóðirnir, Lykill, ÍV-sjóðir auk Byggðastofnunar og lífeyrissjóðanna.
Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) hafa tekið saman umsóknirnar og stöðu þeirra en samantektin byggir á upplýsingum frá viðskiptabönkum og sparisjóðum sem tóku á móti umsóknum. Óskað var eftir fjölda umsókna, fjölda afgreiddra umsókna, fjölda samþykktra og synjaðra umsókna.
Alls bárust 1.664 umsóknir um greiðslufrest á tímabilinu 23. mars til 4. maí og höfðu um 90% umsókna (1.496) verið samþykktar þegar samantekt SFF var gefin út. Um 96% fyrirtækja þóttu hafa uppfyllt skilyrði samkomulagsins en einungis 57 fyrirtæki þóttu ekki gera það. Því hafa umsóknir 1.439 aðila verið samþykktar.
Í samantekt Samtaka fjármálafyrirtækja kemur fram að í langflestum tilfellum sé um að ræða örfyritæki með færri en 10 starfsmenn eða lítil fyrirtæki með minna en 50% starfsmenn. Yfir 70% teljast til örfyrirtækja og tæplega 20% til lítilla fyrirtækja.
Fimm prósent fyrirtækja sem sóttu um greiðslufrest teljast til stórra fyrirtækja og 6% til meðalstórra. Samantekt á stærð umsækjenda byggir á upplýsingum um 1.300 af þeim 1.664 sem sóttu um.