Karlmaður um þrítugt var í gærkvöldi útskurðaður í ellefu daga gæsluvarðhald vegna gruns um að hafa orðið móður sinni að bana. Banameinið er talið vera hnífstunga.
Maðurinn var leiddur fyrir dómara í Héraðsdómi Reykjaness um kvöldmatarleytið í gær og var úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna. Lögreglu barst tilkynning um klukkan hálf tvö aðfaranótt mánudags og fannst konan, sem var um sextugt, látin á heimili sínu í Hafnarfirði þegar lögregla kom á staðinn.
Maðurinn, sem er sonur konunnar, var handtekinn ásamt öðrum manni á sextugsaldri. Þeim manni var sleppt úr haldi í gær og er ekki grunaður um að hafa átt aðild að andlátinu. Heimildir fréttastofu herma að rannsóknin miði að því að banameinið sé hnífstunga.
Margeir Sveinsson, hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, segir að rannsókn málsins sé í fullum gangi. Hann vildi ekki veita frekari upplýsingar um það að svo stöddu. Maðurinn sætir gæsluvarðhaldi til 17. apríl.