Fótbolti

Solskjær segir fótboltamenn auðvelt skotmark og umræðuna ósanngjarna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Paul Pogba og Ole Gunnar Solskjær.
Paul Pogba og Ole Gunnar Solskjær. Getty/Robbie Jay Barratt

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, segir að fótboltamenn séu auðvelt skotmark á tímum kórónuveirunnar en fótboltamenn hafa verið mikið í umræðunni undanfarna daga vegna launalækkana og fleira.

Heilbrigðismálaráðherra Englands Matt Hancock sagði á dögunum að leikmenn enska boltans ættu að hjálpa til og taka á sig launalækkun. Þessi ummæli vöktu mikil viðbrögð innan knattspyrnuhreyfingarinnar enda hafa fótboltamenn í gegnum tíðina verið iðnir við að leggja ýmsum málefnum lið.

Norðmaðurinn var í viðtali við þá Gary Neville og Geoff Shreves á Sky Sports í gær þar sem Solskjær talaði úr stofunni heima í Manchester.

„Fyrir mig er fótboltinn stundum auðvelt skotmark. Mér finnst það ósanngjarnt að kalla eftir ákveðnum einstaklingum eða fótboltamönnum sem hóp því mér finnst þeir nú þegar vera leggja á sig mikla vinnu fyrir samfélagið og þeir eru að gera fullt til að hjálpa í þessari stöðu,“ sagði Solskjær.

„Það eru umræður á milli leikmanna og félaganna hvað muni gerast. Þetta er ekki auðvelt og að vera stillt svona upp við vegg finnst mér ósanngjarnt. Það hafa verið gerð mistök og þau eru til að læra af þeim. Núna þurfum við að taka betri ákvarðanir og ég held að við viljum öll hjálpa heilbrigðiskerfinu, samfélaginu og ég held að það sé mikilvægt að hvert félag geri það sem þeim finnst rétt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×