Fótbolti

Levy sagður tilbúinn að hleypa Kane til Man. United fyrir 200 milljónir punda

Anton Ingi Leifsson skrifar
Kane hefur verið magnaður fyrir Tottenham.
Kane hefur verið magnaður fyrir Tottenham. vísir/getty

Dail Mail greinir frá því á vef sínum að Tottenham sé reiðubúið að selja framherja og fyrirliða liðsins Harry Kane í sumar til þess að létta á fjarhag félagsins.

Daniel Levy, stjórnarformaður Tottenham, er sagður tilbúinn að selja Kane til Manchester United fyrir 200 milljónir punda en Kane talaði einnig um það í viðtali á dögunum að hann gæti hugsað sér til hreyfings.

Levy er einnig sagður hafa verið allt annað en sáttur með umrætt viðtal en þar sagði fyrirliðinn að það ætti að slaufa tímabilinu ef því yrði ekki lokið áður en júní væri allur.

Félögin í ensku úrvalsdeildinni verða af miklum peningum ef tímabilið er ekki klárað þar sem risa sjónvarpssamningur myndi þá ekki skila sér allur til félaganna.

Tottenham hefur miklar áhyggjur af fjárhag félagsins og mögulega meiri áhyggjur en önnur félög í ensku úrvalsdeildinni því félagið var nýbúið að taka í notkun glæsilegan leikvang sem það er enn að borga brúsann af.

Kane hefur verið á meiðslalistanum frá því í janúar en hann hefur verið einn albesti leikmaður enska boltans undanfarin ár. Borgi United 200 milljónir punda fyrir hann yrði hann dýrasti leikmaður heims en Neymar fór til PSG fyrir 198 milljónir punda sumarið 2017.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×