Kórónuveiran hefur nú haft áhrif á fyrsta stóra íþróttaviðburðinn á Íslandi en fram að þessu hafa yfirmenn íslensku íþróttasambandanna ekki frestað íþróttamótum fullorðinna.
Það breyttist í gær þegar íslenska CrossFit hreyfingin tók stóra ákvörðun.
Reykjavik CrossFit Championship hefur ákveðið að mótið fari ekki fram 3. til 5. apríl eins og áætlað var.
Mótshaldarar tilkynntu það á heimasíðu sinni og samfélagsmiðlum að þeir hafi þurft að færa mótið aftur um tvo mánuði.
Nákvæmur tími hefur ekki verið staðfestur en mótið á nú að fara fram í júnímánuði.
Þrjú sæti á heimsleikana í haust eru í boði á mótinu, eitt í karlaflokki, eitt í kvennaflokki og eitt í liðaflokki.
„Það hryggir okkur að þurfa að tilkynna það að við þurfum að fresta Reykjavik Crossfit Championship þar til seinna á þessu ári. Þetta var gert vegna óvissunnar í kringum Kórónuveiruna og þess vegna höfum við frestað mótinu fram í júní,“ sagði á heimasíðu mótsins.
Mótshaldarar hafa selt marga miða á mótið og munu þeir miðar gilda áfram á mótið en fari svo að mótinu verður frestað þá fá menn þá endurgreidda.