Namibísk stjórnvöld hafa ekki verið í sambandi við starfsfólk Samherja vegna spillingarrannsóknar þar í landi eða mögulega aðgerða, að sögn fyrirtækisins. Aðstoðarríkissaksóknari í Namibíu hélt því fram að handtökur á Íslandi væru væntanlegar.
Fjölmiðlar í Namibíu höfðu eftir Ed Marondedze, aðstoðarríkisaksóknara, að rannsókn stæði enn yfir á mútugreiðslum sem tengjast úthlutun á veiðiheimildum í nokkrum löndum og að hann byggist við handtökum á Íslandi og í Angóla. Samherji hefur verið sakaður um að bera fé á embættismenn í Namibíu til að tryggja sér kvóta þar.
Í skriflegu svari Samherja við fyrirspurn Vísis segir að fyrirtækinu sé ekki kunnugt um að namibísk stjórnvöld hafi sett sig í samband við starfsfólk fyrirtækisins í tengslum við rannsóknina eða mögulegar handtökur.
Ólafur Þór Hauksson, héraðssaksóknari, sagði við Vísi í síðustu viku að embætti hans væri í samskiptum við ríkissaksóknara í Namibíu og að framvinda hafi orðið í réttarbeiðnum sem hafi borist þaðan.
Samherji segir þó í yfirlýsingu sinni að fyrirtækinu sé ekki kunnugt um „tvíhliða samkomulag milli Namibíu og Íslands sem myndi heimila aðgerðir hér á landi gagnvart íslenskum fyrirtækjum eða einstaklingum“.