Erlent

John­son full­yrti að ekkert land væri með smitrakningarapp sem virkar

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Boris Johnson segir smitrakningu í Bretlandi ganga vel.
Boris Johnson segir smitrakningu í Bretlandi ganga vel. JESSICA TAYLOR/EPA

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi breska Íhaldsflokksins, hefur verið nokkuð harðlega gagnrýndyr eftir að hann fullyrti að aðgerðir breskra stjórnvalda til að auðvelda rakningu á kórónuveirusmitum gengju vel, og að ekkert land hefði enn komið á fót smitrakningarappi sem virkar.

Ummælin lét Johnson falla í kjölfar þess að meðlimir breska þingsins höfðu lýst áhyggjum sínum af því að tveir þriðju þeirra smita sem greinast í Bretlandi væru ekki raktir með fullnægjandi hætti.

Keir Starner, þingmaður Verkamannaflokksins, sagði þetta stórt vandamál og kallaði eftir þróun rakningarapps. Slíkt app væri nauðsynlegt ef aflétta ætti samfélagslegum takmörkunum sem í gildi eru til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar.

Johnson svaraði því til að vinna við smitrakningu gengi vel í Bretlandi, og að skilvirkt kerfi væri við lýði í þeim efnum.

Þá spurði hann hvort Starner gæti „nefnt eitt ríki heims sem er með smitrakningarapp sem virkar, því það er ekki eitt slíkt til.“

Keir benti þá meðal annars á að í Þýskalandi væri smitrakningarapp sem 12 milljónir manna hefðu hlaðið niður. Eins benti hann á rakningaröpp í Singapúr og Suður-Kóreu.

Meðal annarra landa sem hafa gefið út öpp, eða smáforrit, sem ætluð eru til smitrakningar eru Frakkland, Ástralía og Lettland. Eins og margir vita er Ísland einnig í hópi þeirra ríkja sem notast við app við smitrakningu. Appið ber heitið C-19 og er aðgengilegt í App-store og Google-store, fyrir Apple- og Android-snjalltæki. Í byrjun apríl þessa árs höfðu yfir hundrað þúsund manns náð í appið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×