Innlent

Ekkert vanda­mál að ná í ferða­mennina sem eru með veiruna

Sylvía Hall skrifar
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn. Vísir/Vilhelm

Vel hefur gengið að ná í ferðamenn sem fá jákvæða niðurstöðu úr skimun við landamærin. Tæplega fjörutíu tilfelli hafa komið upp og engin dæmi eru um að ekki náist í ferðamennina eftir að niðurstaða liggur fyrir.

Þetta segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn í samtali við fréttastofu. Framkvæmdin er enn sú að ferðamenn fá tilmæli um að halda sig til hlés þar til niðurstaða úr sýnatöku liggur fyrir en eftir það mega þeir ferðast um landið af vild. 

„Þú ert beðin um að fara varlega þar til þú færð niðurstöðurnar úr sýninu sem er tekið við landamærin, sem er yfirleitt 4-6 klukkutímar. Ef þú kemur seint að kvöldi færðu það líklegast daginn eftir,“ segir Víðir. Ef sýnið reynist jákvætt þarf að taka blóðprufu til þess að kanna hvort um gamalt smit sé að ræða.

Ekkert innanlandssmit greindist síðasta sólarhringinn og eru þau enn ellefu síðan 15. júní. Ekki hefur greinst innanlandssmit síðan 2. júlí.

Til stendur að breyta reglunum og gerði sóttvarnalæknir tillögu um að herða þær í tilfelli Íslendinga og útlendinga sem búsettir eru hér á landi. Munu þeir þurfa að fara í nokkurra daga sóttkví og tvær skimanir við komuna til landsins en Víðir segir það að öllum líkindum skýrast betur á morgun.

„Það er stefnan og við erum að horfa á Íslendinga og fólk sem býr á Íslandi og þá sem munu hafa mikil tengsl inn í samfélagið. Ef þú ert t.d. að fá vin þinn frá Englandi í heimsókn og hann er að fara að vera á heimilinu hjá þér í nokkra daga, þá er skynsamlegt að fara þessa leið,“ segir Víðir og bætir við að með þessu sé verið að leggja áherslu á þann hóp sem er líklegastur til að smita aðra.

„Það er verið að horfa á hverjir hafa mest tengsl inn í samfélagið og geta þá smitað flesta. Við sjáum verulegan mun í smitrakningu þegar við erum með ferðamenn miðað við fólk sem hefur mikil tengsl inn í samfélagið.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×