Erlent

Ginsburg komin heim og er við góða heilsu

Andri Eysteinsson skrifar
Ruth Bader Ginsburg er elsti hæstaréttardómari Bandaríkjanna.
Ruth Bader Ginsburg er elsti hæstaréttardómari Bandaríkjanna. getty/Tom Brenner

Hæstaréttardómarinn Ruth Bader Ginsburg hefur verið útskrifuð af Johns Hopkins sjúkrahúsinu eftir að hafa verið lögð inn vegna mögulegrar sýkingar.

Kathy Arberg, talskona Hæstaréttar Bandaríkjanna, sagði í yfirlýsingu að hin 87 ára gamla Ginsburg sé komin aftur á heimili sitt þar sem hún er við góða heilsu.

Ginsburg hafði fundið fyrir hita og flensueinkennum og var því færð í læknishendur. Fylgst er vel með heilsu Ginsburg sem er elsti Hæstaréttardómarinn en dómarar eru skipaðir ævilangt af forseta Bandaríkjanna. Þegar hefur Donald Trump skipað tvo nýja dómara á forsetatíð sinni og eru íhaldsmenn nú í meirihluta.

Starfsmannastjóri Hvíta hússins, Mark Meadows, sagði um borð í flugvél forsetans að komi til þess að staða losni við Hæstarétt verði Trump fljótur að skipa nýjan dómara. Myndi hann líka leitast eftir því að Öldungadeild Bandaríkjaþings myndi taka málið fyrir með hraði.

Meadows bætti þó við að hann væri himinlifandi yfir því að Ginsburg væri við góða heilsu og væri komin heim að nýju.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×