Fótbolti

Stutt svar Elísabetar við væli andstæðinganna: „Þrjú stig“

Sindri Sverrisson skrifar
Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað Kristianstad um langt árabil.
Elísabet Gunnarsdóttir hefur þjálfað Kristianstad um langt árabil. mynd/@kristianstadsdff

Kristianstad, undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur, vann sterkan sigur gegn Eskilstuna á útivelli, 3-2, í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta í fyrrakvöld. Eskilstunafólk kvartaði og kveinaði eftir tapið.

Kristianstad fékk afar erfiða leikjadagskrá í upphafi þessa tímabils en í fyrstu fjórum leikjunum hefur liðið mætt fjórum efstu liðunum frá síðustu leiktíð. Kristianstad tapaði gegn meisturum Rosengård og Gautaborg, gerði svo 3-3 jafntefli við Vittsjö en vann Eskilstuna á útivelli.

Eskilstuna var manni færra frá 12. mínútu en þá kom Therese Ivarsson Kristianstad yfir úr víti. Eskilstuna náði að jafna og komast yfir á 59. mínútu, en Svava Rós Guðmundsdóttir jafnaði metin skömmu síðar. Sigurmark Kristianstad skoraði Eveliina Summanen á 83. mínútu.

Felicia Rogic, leikmaður Eskilstuna, og þjálfarinn Magnus Karlsson voru ekki par hrifin af því hvernig Kristianstad spilaði leikinn.

„Vissulega fengu þær öll stigin en… að liggja svona aftarlega á vellinum og spila svona hægt manni fleiri. Mér fannst þær virkilega lélegar, og þú mátt skrifa það,“ sagði Rogic við Eskilstuna-Kuriren. Þjálfarinn Karlsson bætti við:

„Þær þurftu víti, eitt langskot og skyndisókn eftir misheppnaða sendingu til að vinna okkur þó að við værum með 10 leikmenn í 80 mínútur. Þær gerðu ekki margt annað sem að ógnaði okkur.“

Elísabet deildi ummælum þeirra á Twitter, og skrifaði einfaldlega kankvís; „Þrjú stig“.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×