Erlent

Ríkisstjóri Georgíu stefnir borgarstjórn Atlanta vegna grímuskyldu

Andri Eysteinsson skrifar
Brian Kemp ríkisstjóri er ekki sáttur með yfirvöld í Atlanta.
Brian Kemp ríkisstjóri er ekki sáttur með yfirvöld í Atlanta. Getty/Kevin C. Cox

Ríkisstjóri Georgíu segir að borgarstjóri stærstu borgar ríkisins hafi ekki vald til þess að setja á andlitsgrímuskyldu í borginni vegna kórónuveirufaraldursins. Hann hefur því ákveðið að stefna borgaryfirvöldum í Atlanta.

Brian Kemp, ríkisstjóri, skrifaði í vikunni undir tilskipun þar sem allar grímuskyldur sem settar hefðu verið á í ríkinu voru teknar úr gildi en hans skoðun er sú að það eigi að vera undir hverjum einstaklingi komið hvort hann klæðist andlitsgrímu eður ei.

Borgarstjóri Atlanta, Keisha Lance Bottoms, sem sjálf hefur greinst smituð af kórónuveirunni segir þó að tilskipun Kemp muni ekki binda endi á grímuskyldu Atlanta.

Kemp er ósáttur við þessi áform Bottoms og gaf út yfirlýsingu í dag þar sem hann sagðist ætla að taka á vandanum „fyrir hönd fyrirtækjaeigenda í Atlanta og lúsiðinna starfsmanna þeirra sem reyna að lifa lífi sínu á þessum erfiðu tímum,“ sagði Kemp og bætti við, „ég neita að láta hrikalega stefnu stofna lífi og lífsviðurværi fólks í hættu.“

Borgarstjórinn Bottoms segir að skattfé sé betur varið með því að stunda smitrakningu og efla sýnatöku í borginni.

„Við munum mæta þeim í réttarsalnum ef það er það sem þarf til þess að bjarga lífum í Atlanta,“ sagði Bottoms.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×