Erlent

Felur sig frá sak­sóknurum á ræðis­skrif­stofu Kína

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Bandaríkjamenn saka Kínverja um að senda dulbúna vísindamenn úr röðum kínverska hersins til Bandaríkjanna. Einn þeirra feli sig frá réttvísinni á ræðisskrifstofu Kína í San Francisco.

Konan sem nú er sögð fela sig á ræðisskrifstofunni heitir Juan Tang og stusndaði líffræðirannsóknir við Kaliforníuháskóla. Hún er sökuð um að vera í Bandaríkjunum á fölskum forsendum. Í dómsskjölum segir að hún hafi sagt alríkislögreglu ósatt við yfirheyrslu. Sagðist ekki hafa gegnt herþjónustu á meðan rannsókn lögreglu sýndi fram á hið gagnstæða.

Í skjölunum segir að þetta mál sýni fram á að ræðisskrifstofan í San Francisco geti þjónað þeim tilgangi að skýla útsendurum kínverska hersins frá saksóknurum. Þá eru kínversk yfirvöld sömuleiðis sögð líkleg til þess að hjálpa ákærðum og eftirlýstum Kínverjum að flýja land.

Þegar upplýsingafulltrúi kínverska utanríkisráðuneytisins var spurður út í málið í á blaðamannafundi í morgun tjáði hann sig ekki efnislega um það

„Um nokkurt skeið hafa Bandaríkin fylgst náið með, áreitt og jafnvel handtekið kínverska náms- og fræðimenn í Bandaríkjunum án ástæðu. Þau eru álitin sek uns sakleysi er sannað,“ sagði upplýsingafulltrúinn.

Sjónir Bandaríkjamanna beinast ekki eingöngu að skrifstofunni í San Francisco en í gær var þeim tilmælum beint til Kínverja að loka ræðisskrifstofu sinni í Houston. Sagði bandaríska utanríkisráðuneytið að slíkt væri nauðsynlegt til að fyrirbyggja njósnir og hugverkastuld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×